Valmynd Leit

Mįlstofa 1.1

Málstofa 1.1

Rannsókn á Byrjendalæsi: Markmið, snið, gögn og úrvinnsla
Rúnar Sigþórsson, prófessor við HA (runar@unak.is)

Byrjendalæsi sem umgjörð um læsiskennslu í 1. og 2. bekk hefur verið innleitt í grunnskólum í samvinnu við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri (MSHA) frá 2006. Höfundur aðferðarinnar er Rósa Eggertsdóttir. Byrjendalæsi er hvort tveggja í senn: kennslulíkan og starfsþróunarferli við innleiðingu aðferðarinnar. Rannsókn á læsismenntun undir merkjum Byrjendalæsis hófst haustið 2011. Markmið hennar er að rannsaka Byrjendalæsi, nám og kennslu sem fram fer undir merkjum þess og starfsþróun við innleiðingu Byrjendalæsis í ljósi alþjóðlegrar þekkingar á læsismenntun og starfsþróun. Enn fremur að efla rannsóknir og þekkingu á læsismenntun og stuðla að þróun hennar í grunnskólum. Rannsóknin beinist að lykilþáttum Byrjendalæsis, námi og kennslu, starfsþróun kennara og þróunarskilyrðum innan skóla. Að rannsókninni stendur rannsóknarhópur tengdur hug- og félagsvísindasviði HA og menntavísindasviði HÍ ásamt meistaranemum. Rannsóknin er tvíþætt: 1) Tilviksrannsóknir í sex skólum þar sem fylgst var með kennslu og tekin viðtöl við kennara, nemendur, foreldra og stjórnendur; 2) spurningalistakönnun sem send var skólastjórum og kennurum í 1.–4. bekk í 68 skólum sem nota Byrjendalæsi og 53 skólum sem ekki nota aðferðina. Í erindinu verður greint nánar frá rannsókninni, markmiðum hennar, rannsóknarspurningum, gögnum og úrvinnslu þeirra. Þáttur skólastjóra í innleiðingu og þróun Byrjendalæsis: Samanburður á tveimur skólum
Eygló Björnsdóttir, dósent við HA (eyglob@unak.is), María Steingrímsdóttir, dósent við HA (maria@unak.is) og Sigríður Margrét Sigurðardóttir, lektor við HA (sigridurs@unak.is)

Samkvæmt starfsþróunarlíkani Byrjendalæsis gegna skólastjórar mikilvægu hlutverki í innleiðingu aðferðarinnar. Í þessu erindi er þáttur skólastjóra í tveimur Byrjendalæsiskólum skoðaður þar sem þróun aðferðarinnar hefur orðið með ólíkum hætti og leitast við að svara eftirfarandi spurningum: Hver er þáttur skólastjóra í innleiðingu Byrjendalæsis og hvaða þýðingu hefur aðkoma þeirra haft fyrir innleiðingu aðferðarinnar? Unnið var með gögn úr tveimur Byrjendalæsiskólum sem aflað var með viðtölum og vettvangsathugunum á árunum 2012–2014. Niðurstöður sýna meðal annars að þátttaka skólastjóra í innleiðingu Byrjendalæsis hefur áhrif á það að hvaða marki og hvernig leiðtogar og kennarar tileinka sér vinnubrögð aðferðarinnar. Niðurstöðurnar eru gagnlegar fyrir skólastjóra og þá sem standa að innleiðingu Byrjendalæsis en einnig aðra sem hyggjast innleiða breytingar.


 

Hlutverk leiðtogans í innleiðingu og þróun Byrjendalæsis í ljósi mismunandi aðstæðna
Eygló Björnsdóttir, dósent við HA (eyglob@unak.is), María Steingrímsdóttir, dósent við HA (maria@unak.is) og Sigríður Margrét Sigurðardóttir, lektor við HA (sigridurs@unak.is)

Starfsþróunarlíkan Byrjendalæsis hefur verið hannað með það fyrir augum að styðja við innleiðingu aðferðarinnar í skólum. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að skipaður sé leiðtogi í hverjum skóla sem gegnir lykilhlutverki við innleiðingu aðferðarinnar. Í þessu erindi er greint frá athugun á hlutverki leiðtogans í Byrjendalæsisskólum þar sem þróun á starfi leiðtogans hefur verið með ólíkum hætti og leitast við að skýra ástæður þess og þýðingu fyrir innleiðingu Byrjendalæsis í skólunum. Unnið var með gögn úr tveimur Byrjendalæsiskólum sem aflað var með viðtölum og vettvangsathugunum á árunum 2012–2014. Niðurstöður benda til þess að þættir eins og reynsla, þekking og áhugi leiðtogans á læsiskennslu og aðferðum Byrjendalæsis, ytra stuðningsnet skólans og hvernig staðið var að ákvörðun um að taka upp aðferðina hafi áhrif á hvernig leiðtoga gengur að vinna að framþróun aðferðarinnar. Niðurstöður eru gagnlegar þeim sem standa að innleiðingu aðferðarinnar og þeirra sem leiða þróunarverkefni í skólum.


 

Aðalnámskrá – skólanámskrá – Byrjendalæsi
Guðmundur Björn Kristmundsson, dósent við HÍ (gudkrist@hi.is)

Einn þáttur í rannsókn á Byrjendalæsi fólst í því að athuga skóla- og bekkjarnámskrár. Þau skjöl eru af misjöfnum toga, sum allnákvæm, önnur síður, sum tengdari skólanámskrá en aðrar. Í fyrirlestrinum verður gerð stutt grein fyrir þessu og umfjöllun tengd ákvæðum aðalnámskrár. Þetta er forvitnilegt í ljósi þeirrar umræðu sem farið hefur fram um námskrár og einnig athugasemda sem berast utan úr heimi um það gap sem virðist vera á milli ákvæða aðalnámskráa, skólanámskráa og árangurs. Kann innleiðing Byrjendalæsis að hafa áhrif á þessi tengsl?


 


Mišstöš skólažróunar

Sólborg v/noršurslóš              600 Akureyri, Iceland              gunnarg@unak.is              S. 460 8590 

Fylgdu okkur eša deildu