Mannkostamenntun - 10 ECTS einingar á framhaldsstigi

Mannkostamenntun

Viltu skipta máli í lífi ungs fólks? Hagnýtt, sveigjanlegt, starfstengt ECTS eininganám fyrir starfandi kennara!

Mannkostamenntun byggir á hagnýtri siðfræði og hugmyndum um að með því að rækta siðferðisþroska nemenda og efla dygðalæsi þeirra sé lagður grunnur að farsælu lífi. Nemendur fá tækifæri til að leggja rækt við eigin þroska og vinna að því takmarki að verða góðar manneskjur sem taka skynsamlegar ákvarðanir. Mikil áhersla er lögð á persónulega nálgun og að hver og einn fái tækifæri til að efla mannkosti sína og farsæld í gegnum námið. Auðvelt er að tengja grunnþætti menntunar og þann boðskap sem þeir bera um að mennta gagnrýna, virka og hæfa þátttakendur í lýðræðissamfélagi við hugmyndafræðina sem liggur á bak við mannkostamenntunina. Viðfangsefni mannkostamenntunar koma því inn á alla grunnþætti menntunar sem tilgreindir eru í aðalnámskrá.

Meginmarkmið námsins er að veita nemendum þekkingu á mannkostamenntun og dygðasiðfræði, leikni í að vinna með viðfangsefnið í kennslu og hæfni til að miðla því til nemenda sinna í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Lögð er áhersla á að vinna með sjálfstæða hugsun og hvernig skynsemin getur hjálpað einstaklingum að öðlast þekkingu og visku sem nýtist þeim í lífinu.  

Námskeiðið er á meistarastigi og kennt í gegnum vefinn. Kennsla fer fram á tveimur misserum og geta nemendur lokið náminu á einu skólaári. Þátttakendur fá þjálfun í að gera starfendarannsókn þar sem þeir innleiða mannkostamenntun í kennslu á vettvangi. Þátttakendur munu skoða og greina eigin starfskenningu og reynslu í þeim tilgangi að þróa og bæta eigið starf og skapa nýja þekkingu. Gert er ráð fyrir því að nemendur séu starfandi kennarar og hafi möguleika á að tengja námið við starfsvettvang. 

Mannkostamenntun er hægt að flétta inn í allar námsgreinar í gegnum formlegt og óformlegt nám.

Skráning á námskeið í mannkostamenntun


Markhópur:
Kennarar og stjórnendur í leik- grunn-, framhalds- og háskólum. Náms- og starfsráðgjafar og aðrir háskólamenntaðir sem stunda kennslu eða vinna með nemendum. 

Umsækjandi þarf að hafa leyfisbréf til kennslu og hafa starfað við kennslu í a.m.k. tvö ár. Umsóknir sem ekki teljast uppfylla almenn inntökuskilyrði eru metnar sjálfstætt. Því er mikilvægt að umsækjendur sem ekki uppfylla almenn inntökuskilyrði skili viðbótarupplýsingum, til dæmis kynningarbréfi ásamt upplýsingum um fyrra nám. 


Umfang:
Um er að ræða 10 ECTS eininga námskeið sem skiptist í tvær annir. 


Lýsing:
Kennsla í námskeiðinu verður með fjölbreyttum hætti í formi fyrirlestra, umræðna, verkefnavinnu og fjarfunda. Lögð er áhersla á kennsluhætti sem hvetja til virkrar þátttöku nemenda. Námskeiðið er vettvangs- og starfsmiðað. Þátttakendur fá þjálfun í að gera starfendarannsókn þar sem þeir innleiða mannkostamenntun í kennslu á vettvangi.


Markmið:

Meginmarkmið námsins er að veita þátttakendum þekkingu á mannkostamenntun (e. character education) og dygðasiðfræði, leikni í að vinna með viðfangsefnið í kennslu og hæfni til að miðla því til nemenda sinna í leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Fyrirkomulag:
Námið er kennt í fjarnámi. Nemendur mæta í rafrænar lotur (4 á haustmisseri og 2 á vormisseri) og nýta þess á milli Canvas kennslukerfið til að hlusta á fyrirlestra, taka þátt í samræðum og vinna verkefni. 

Námið er á kynningarverði skólaárið 2022-2023 og kostar 200.000 kr. 

Haustönn

Lota 1 - Miðvikudagur 6. september 15:00-16:00
Lota 2 - Miðvikudagur 4. október 14:00-16:00
Lota 3 - Miðvikudagur 1. nóvember 14:00-16:00
Lota 4 - Föstudagur 24. nóvember 12:30-16:00

Vorönn
Lota 5 - Miðvikudagur 10. janúar 2024 14:30-16:00
Lota 6 - Miðvikudagur 17. apríl 2024 14:00-16:00


Að loknu námi getur nemandi:

  • gert grein fyrir fræðilegum kenningum um mannkostamenntun, 
  • útskýrt hugtök sem eru tengd viðfangsefnum mannkostamenntunar, 
  • nýtt sér fjölbreyttar kennsluaðferðir og námsefni í mannkostamenntun fyrir margbreytilega nemendahóp
  • sett nýjustu þekkingu á sviði dygðasiðfræði og mannkostamenntunar í samhengi við eigið starf og beitt henni í skólastarfi
  • rökstutt mikilvægi samræðna sem kennsluaðferðar 
  • beitt aðferðum starfendarannsókna og geta nýtt niðurstöður þeirra til að þróa, ígrunda og bæta eigið starf á gagnrýninn og uppbyggilegan hátt. 

Áherslur á námskeiðum

1 önn   2 önn

Á haustmisseri verður fjallað um dygðasiðfræði og mannkostamenntun og farið yfir helstu hugtök, kenningar og rannsóknir sem tengjast viðfangsefninu. Áhersla verður lögð á að nemendur læri kennsluaðferðir sem miða að því að efla skilning nemenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum á viðfangsefninu. Sérstök áhersla verður lögð á samræður sem kennsluaðferð. Áhersla verður lögð á hvernig nemendur í námskeiðinu geta komið til móts við fjölbreyttan nemendahóp í skólum með sveigjanlegu skipulagi og fjölbreyttum kennsluaðferðum. 

 

 

Nemendur nýta þá þekkingu, leikni og hæfni sem þeir hafa öðlast á hausmisseri til að innleiða hugmyndafræði mannkostamenntunar í eigin kennslu. Nemendur gera starfendarannsókn þar sem þeir vinna með viðfangsefni mannkostamenntunar með nemendum sínum, safna gögnum, greina þau, túlka og leita leiða til að gera betur.