Rannveig Oddsdóttir aðalfyrirlesari 2018

Þróun ritunar í snjallari heimi
Rannveig Oddsdóttir, sérfræðingur við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri

Þróun ritunar er langtímaferli sem hefst strax í frumbernsku og nær fram á fullorðinsár. Börn læra ritun ekki eingöngu í gegnum beina kennslu í skóla heldur hefur umhverfi þeirra heilmikið að segja líka. Í gegnum daglegt líf átta þau sig á því hvernig ritmál er notað til samskipta, sköpunar og miðlunar og þau byrja að prófa sig áfram með notkun þess. Þau líkja eftir ritunarathöfnum fullorðinna og ná smám saman tökum á því að nýta ritmál til tjáningar, samskipta og sköpunar.

Á undanförnum árum hafa orðið miklar framfarir í upplýsingatækni. Fram hafa komið nýir miðlar og ný tækni sem hefur mikil áhrif á það hvernig við miðlum efni okkar á milli. Í stað þess að rita texta á blað getum við nú skrifað texta á lyklaborð eða skjá eða jafnvel lesið hann inn og látið forrit um að umskrá hljóðastrengina yfir í rittákn. Mun auðveldara er en áður að tengja saman talmál, myndmál og ritmál og boð sem áður voru nokkra daga eða vikur að berast á milli manna fljúga nú á milli heimshluta á sekúndubroti.

Þessi nýja tækni hefur haft umtalsverð áhrif á það hvernig við nýtum ritun í okkar daglega lífi og þar með hvernig börn kynnast ritmáli. Sendibréf og dagbækur hafa vikið fyrir tölvupósti og samskiptamiðlum og lyklaborð og tölvuskjáir leyst blýanta og blöð af hólmi. Í erindinu veltir Rannveig því fyrir sér hvaða áhrif þessi tæknibylting kann að hafa á þróun ritunar hjá börnum.

Rannveig Oddsdóttir (rannveigo@unak.is) lauk leikskólakennaranámi frá Fósturskóla Íslands 1994, meistaranámi frá Kennaraháskóla Íslands með áherslu á sérkennslu 2004 og doktorsprófi frá Menntavísindasvið Háskóla Íslands 2018. Rannveig kenndi um árabil í leik- og grunnskólum en starfar nú sem sérfræðingur við Miðstöð skólaþróunar Háskólann á Akureyri. Rannveig hefur á undanförnum árum einbeitt sér að rannsóknum á þróun máls, læsis og ritunar hjá börnum á leik- og grunnskólaaldri.