Teymisvinna sem grunneining í lærdómssamfélagi

Teymisvinna

Skólastarf er síbreytilegt og lifandi þar sem mismunandi ytri og innri þættir hafa áhrif á nám og starf starfsmanna og nemenda og þróun skóla sem stofnana. Árangursrík og fagleg starfsþróun byggist á styðjandi, gagnrýnu og uppbyggjandi hugarfari og vinnubrögðum í starfinu sjálfu og sem hluti af því með áherslu á almenna virka þátttöku og forystuhæfni. Menning sem styður við slíka starfshætti og viðheldur þeim getur rúmast innan þess sem kalla má lærdómssamfélag (e. professional learning community).

Ef nám er lykilhugtak í skólastarfi mætti líta á lærdómssamfélag  sem yfirhugtak eða umgjörð til að efla nám í skólanum.  Þar vinnur fólk náið saman út frá mótaðri námssýn sem allir skilja á sama hátt. Allt starfsfólk hefur miklar væntingar til nemenda og ber sameiginlega ábyrgð á námi þeirra en einnig hvað á annars námi. Það rannsakar starf sitt og ígrundar það í þeim tilgangi að efla það og stuðla að auknum námsárangri hjá nemendum. Faglegt samstarf sem leið til starfsþróunar er eitt megineinkenni lærdómssamfélags. Markmiðastýrð teymisvinna þar sem þátttakendur taka að sér forystu, mismunandi hlutverk og ábyrgð er grunneining í faglegu samstarfi, starfseflingu og framþróun í lærdómssamfélagi. Teymisvinnu má stigskipta eftir því hvað einkennir starf hennar. Efsta stig teymisvinnu og það árangursríkasta er það sem kalla má lærdómsteymi. 

Hvernig verður teymi að lærdómsteymi og hvað þarf til að ná þeim áfanga er það sem þetta þróunarverkefni snýst um. Aguilar, E. (2016) heldur því fram að til þess að byggja upp teymi þar sem starfið einkennist af þrautseigju og þróun starfhátta verði að byggja upp traust. Til þess að byggja upp traust verða meðlimir að þekkja sjálfa sig mjög vel því þroski teymisins byggist á því hvernig hver og einn þekkir sjálfan sig og einnig aðra meðlimi. Skipulag teymisins og heilbrigð og hreinskiptin samskipti skipta mikilu máli við ákvarðanatöku. Að þekkja sögu hvers annars, bakgrunn, gildi, trú, vonir og drauma, færni og hæfileika og ótta og áhyggjur er mikilvægt. Sú þekking hjálpar til við að rækta samkennd hvert með öðru þannig að skilningur verður til staðar á hegðun eða viðbrögðum meðlima. Það verður að tryggja að meðlimir þekki hver annan og byggja upp samfélag byggt á persónulegum og faglegum grunni þar sem gagnkvæm virðing ríkir milli allra.

Markhópur:
Kennarar í grunn- og framhaldsskólum


Umfang:
Þróunarverkefni. Tíminn sem fer í verkefnið er metinn og ákveðinn í samráði við stjórnendur og starfsfólk viðkomandi skóla en reikna má með því að verkefnið sé að lágmarki til tveggja ára.


Lýsing:
Á námskeiðinu verður fjallað um áherslur og vinnubrögð í teymum og hin mismunandi stig. Hvað þarf að vera til staðar í teymisvinnu og hvernig má stuðla að því að svo verði? Mynduð verður verkefnisstjórn með teymisstjórum allra teyma og stjórnendum. Stutt verður sérstaklega við verkefnisstjórnina á reglulegum fundum þar sem farið er yfir stöðuna úr frá framkvæmdaáætlun og leitað leiða til að fyrirbyggja og leysa ágreining og leita lausna.


Markmið:
Markmiðið er að til verði áragursríkt teymi, en það:

  • Er með skriflega samþykkt um tilgang, gildi og samskipti.
  • Vinnur sameiginlega að því að leysa úr ágreiningi.
  • Er með raunhæfa verkáætlun sem allir samþykkja.
  • Hefur skýra sýn og vinnur stöðugt að því að ná markmiðum sínum
  • Hefur skýra mynd af verkefnum sínum, þeim markmiðum sem unnið er að og tilgangi með hverju skrefi, fundum, umræðum og ákvörðunum.
  • Tryggir að hæfileikar allra fái notið sín og allir séu virkir og upplifi ekki að vera afskiptir.

Í árangursríku teymi ættu meðlimir teymis:

  • Að vera hnitmiðaður í samskiptum og umræðum. Samræðan beinist að athöfnum en ekki persónum.
  • Að vera gagnorðir.
  • Að beita virkri hlustun; ígrunda það sem aðrir leggja til frekar en að rökræða eða takast á um hugmyndir.
  • Leggja áherslu á að leita allra leiða til að leysa ágreining
  • Vinna markvisst að því að eyða spennu í hópnum og vinna skipulega úr málum
  • Tjá tilfinnigar sínar og fá viðbrögð annarra við þeim
  • Nota gögn við töku ákvarðana.
  • Taka virkan þátt í samræðum og ákvörðunum sem einkennist heilt yfir af jafnræði. Það getur farið eftir umræðuefni hvort sumir hafi meira til málanna að leggja en aðrir.
  • Leitast við að finna lausn til frambúðar fremur en að leita að skyndilausnum.
  • Styðjast við skilvirkar umbótaáætlanir þar sem ábyrgð verkefna er skýr og ljóst hvert stefna skal með umbótum.

Scholtes, Peter R., Joiner, Brian L. og Streibel, Barbara J. (2018). The Team handbook, third edition. Methuen: GOAL/QPC.


Fyrirkomulag:
Vinnan hefst með heils dags fræðslu og vinnudegi að hausti þar sem gerð eru drög að framkvæmdaáætlun. Í kjölfarið er unnið með einstök teymi í skólum þar sem áhersla er lögð á að byggja upp traust og skipulögð vinnubrögð í teymum ásamt því að vinna með einstaka þætti í menningu skóla þar sem markmiðið er að einkenni þeirra fari saman við áherslur lærdómssamfélagsins.