Unglingaspjall

Unglingaspjall

Meginmarkmið Unglingaspjalls er að þátttakendur þjálfist í og læri að taka þátt í samræðum og byggi undir hæfni sem nýtist þeim í daglegum samskiptum. Fundir Unglingaspjallsins taka á ýmsum viðfangsefnum eins og sjálfstyrkingu, tjá skoðanir sínar og virða skoðanir annarra og efla samskiptahæfni. Samræðu- og samskiptafundirnir eru helgaðir hópeflisleikjum og fjölbreyttum verkefnum. Hver fundur felur í sér:

 • Hópeflisleik
 • Viðfangsefni
 • Spjall um viðfangsefni
 • Verkefnavinnu
 • Millifundaverkefni
 • Samantekt

Unglingarnir setja sér markmið á fundunum og vinna að því markmiði á milli funda. Undirstaða fundanna er sett strax á fyrsta fundi þar sem samskipta- og samræðuviðmið eru sett af hópnum. Verkefnið fellur vel bæði að lykilhæfniviðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla og hæfniviðmiðum samfélagsgreina sem snýr að lífleikni og siðfræði.

 

Markhópur:
Grunnskólakennarar á mið- og unglingastigi og náms- og starfsráðgjafar


Lýsing:

Unglingaspjall er samræðu- og samskiptaverkefni ætlað nemendum á mið- unglingastigi grunnskóla (7. -10. bekk). Verkefnið er til að auka samræðu- og samskiptahæfni nemenda. Verkefnið samanstendur af 10 spjallfundum og er hvert spjall 40-60 mínútna langt. Námskeiðið er þannig uppbyggt að 15 fundir fylgja námskeiðinu og getur hver kennari sett saman það námskeið sem hentar hópnum hverju sinni. Verkefnið getur hentað fyrir kynjaskipta hópa eða blandaða hópa. Námskeiðið er bæði hugsað sem fyrirbyggjandi og einnig til þess að vinna úr samskiptavanda sem er til staðar. 


Markmið:

Þátttakendur:

 • Öðlast þekkingu á fræðilegum grunni efnisins.
 • Fá verkfæri í hendurnar til þess að vinna með þætti lykilhæfni í skólastarfi.
 • Leikni til þess að halda leiða samræðu- og samskiptafundi með nemendahópnum.

Ávinningur skóla – nemenda – foreldra:

 • Félagsleg færni nemenda er efld með samskiptavinnu og þeir fá tækifæri til að ræða saman um þau félaglegu skilaboð sem ætluð eru ungu fólki í dag, mikilvægi félagstengsla, sjálfvirðingar og félagslegrar samkenndar.
 • Nemendur fá þjálfun í að hugsa á gagnrýninn hátt um samskipti sín, hvernig þeir tengjast hver öðrum og þeim er gefið tækifæri til að tala um reynslu sína og skoðanir um ýmis samskipta- og álitamál.

Námskeið á staðnum

Fyrri hluti námskeiðsins:
Þátttakendur og námskeiðshaldari hittast í eigin skinni. Á þessum fyrri námskeiðsdegi fer námskeiðshaldari yfir hugmyndafræðina og leggur inn efnið með þátttakendum. Námskeiðið er frá kl. 10.00 - 16.00.

Á milli námskeiðsdaga:
Þátttakendur vinna með verkfæri námskeiðsins (10 umræðufundir) hver í sínum skóla eftir fyrri hluta námskeiðsins. Notast verður við Padlet vegg námskeiðsins þar sem þátttakendur geta deilt hugmyndum og reynslu. Notast verður við zoom fyrir ráðgjafafund eftir að þátttakendur er búnir að halda 3-4 fundi með nemendahópum. Ráðgjafarfundurinn er í rauntíma á zoom og er maður á mann.

Seinni hluti námskeiðsins:
Á seinni hlutanum hittast þátttakendur og námskeiðshaldari í eigin skinni og klára seinni hluta námskeiðsins. 
Dag- og tímasetning á seinni námskeiðsdegi er ca. 3-4 mánuðum eftir fyrri námskeiðsdag er ákveðin af þátttakendum á fyrri námskeiðsdegi. Seinni hluti námskeiðsins er 3 tímar.


Námskeið á vef

Fyrri hluti námskeiðsins:
Námskeiðið er á sveigjanlegu formi sem þýðir að þátttakendur fá aðgang að kennsluumhverfinu canvas þar sem námskeiðið er hýst. Þar hafa þátttakendur viku til þess að hlusta á fyrirlestra námskeiðsins og unnið verkefnin, þeir geta hlustað á fyrirlestrana/unnið verkefnin þegar þeim hentar í þessa einu viku.
Að viku liðinni þá hittast þátttakendur í rauntíma á zoom fundi (kl. 14.00-16.00) með ráðgjafa þar sem farið verður yfir umræðufundina sem þátttakendur nýta síðan með nemendahópum.

Milli námskeiðsdaga:
Þátttakendur vinna með verkfæri námskeiðsins (10 umræðufundir) hver í sínum skóla eftir fyrri hluta námskeiðsins.
Notast verður við zoom fyrir ráðgjafafund eftir að þátttakendur er búnir að halda 3-4 fundi með nemendahópum. Ráðgjafarfundurinn er í rauntíma og er maður á mann.

Seinni hluti námskeiðsins:
Seinni námskeiðsdagur er eins uppbyggður og fyrri námskeiðsdagur, þ.e. þátttakendur hlusta á fyrirlestra á canvas og þeir hafa viku til þess að hlusta á fyrirlestrana.
Að viku lokinni þá hittast þátttakendur ásamt ráðgjafa MSHA í rauntíma á zoom (kl. 14.00-16.00). 


Umsagnir „viðskiptavina“:

„Að fá aðgengi að tilbúnu efni (pakka) til að nýta, ásamt góðri leiðbeiningu á námskeiðinu. Mjög hagnýtt“
„Efnið er mjög aðgengilegt og stýrir vinnunni mjög vel“
„Mér fannst námskeiðið hæfilega langt, vel framsett, skýrt og skipulagt“
„Vel skipulagt og vel uppsett“


Nánari upplýsingar veitir: 

Sigríður Ingadóttir, sigriduri@unak.is , 460 8591