Vísindi í námi og leik - málstofulota I

Vísindi í námi og leik

Málstofulota I 
kl. 11.05–11.35


 

Stofa
N102

Verkfærakistur og veflægar kennslustofur
Brynhildur Bjarnadóttir, lektor við HA og Selma Dögg Sigurjónsdóttir sérfræðingur hjá Nýsköpunarmiðstöð

Síðastliðið haust lauk CRISTAL- verkefninu (Creative regions for Innovation, Skills, Technology, Accessibility and Learning) formlega en markmið þess var að koma á fót skapandi vefsvæði þar sem áhersla var lögð á nýsköpun, tækni og sjálfbærni með ýmsum hætti. Unnið var með hugmyndir og nýjar aðferðir sem miða að því að auka nýsköpunar- og frumkvöðlastarf og STEM-efni (vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði) í kennslu. Útkoman er vefgátt sem skiptist í tvær megin gáttir, verkfærakistu og veflæga kennslustofu. Í verkfærakistunni má finna ýmiskonar kennslu- og stuðningsefni sem tengist nýsköpunar- og frumkvöðlamennt, vísindum og tækni sem og starfsmennt. Í veflægu kennslustofunni er hægt að búa til og stjórna eigin námskeiðum, bæta við nemendum og hafa samskipti við þá á námskeiðum. Í málstofunni verður sagt frá verkefninu og vefsvæðið kynnt áheyrendum. 

Netfang: brynhildurb@unak.is 


 

Stofa
M202

Stærðfræðikennsla á 21. öldinni 
Jóhann Sigursteinn Björnsson, framhaldsskólakennari við Menntaskólann á Akureyri

Í erindinu verður varpað fram spurningum um hlutverk stærðfræði og stærðfræðikennslu í nútíma samfélagi, hver skuli vera megin markmiðin í kennslunni og hvernig beri að ná þeim. Um óformlegar vangaveltur er að ræða, og ekki von á endanlegum svörum, vonast er til þess að áheyrendur geti haft nokkuð gagn og gaman af. 

Netfang: johann@ma.is


 

Stofa
M203

Stafræn tækni og leikskólabörn - Fyrstu skrefin og hlutverk kennara
Anna Elísa Hreiðarsdóttir, lektor við HA

Í erindinu er stuðst við niðurstöður úr rannsókn þar sem fimm ára börn tóku þátt í sex vinnusmiðjum þar sem hugmyndafræði og aðferðir sköpunarrýma (makerspace) voru nýttar til að búa til námsumhverfi þar sem börnin unnu með stafræna tækni og grundvallaratriði forritunar í gegnum leik og sköpun. Gagna var aflað með hreyfi- og ljósmyndum sem bæði börn og rannsakendur stjórnuðu. Upptökuvél var beint að vinnu barna en rannsakendur tóku einnig upp á færanlega vél. Börnin höfðu val um að festa á sig mínivél (GoPro) í bringufestingu. Rannsakendur skráðu vettvangsnótur og tekin voru viðtöl við kennara og börn. Einnig fylltu börnin út matsblað í lok hverrar smiðju og þau jafnframt beðin að útskýra hvað lá að baki matinu. Nokkru eftir að verkefninu lauk var tekið hópviðtal við börnin um þeirra upplifun af þátttökunni. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig börn á leikskólaaldri nýta stafræna tækni til náms. Niðurstöður sýna að börnin sýndu bæði áhuga og framfarir, þau kusu að vinna saman með fjölbreyttum hætti en völdu einnig að vinna ein og sér. Sum börn voru órög við að prófa sig áfram og gera mistök meðan önnur horfðu á og lærðu af hinum áður en þau snertu tæknina. Í erindinu eru fjölbreytt gögn úr rannsókninni nýtt sem grunnur að hugmyndum um hvernig má kynna stafræn viðfangsefni fyrir börnum. Hugað er að hlutverki kennara, s.s. að hverju megi gæta í skipulagi, kennsluaðferðum og gagnaöflun, þ.m.t. mati. Rannsóknin er hluti af alþjóðlega rannsóknarverkefninu Makerspaces in the Early Years: Enhancing Digital Literacy and Creativity. 

Netfang: annaelisa@unak.is 


 

Stofa
L202

Húni II - Frá öngli til maga
Hreiðar Þór Valtýsson, lektor við HA, Steini P. og strákarnir á Húna II

Sjóferðir með 6. bekkinga á Akureyrarsvæðinu með Húna II hafa notið mikilla vinsælda. Í ferðunum er siglt út Eyjafjörðinn, hvalir skoðaðir (ef þeir sjást), fiskar veiddir (ef þeir veiðast) og nemendunum kynnt lífríki sjávar við Ísland. Í lokin eru fiskarnir sem veiddust eldaðir og étnir. Ferðir þessar þykja nú sjálfsagður hluti af grunnskólakennslu á Akureyri. Margir hafa lagt þrotlausa vinnu (oft sjálfboðavinnu) af hendi til að gera þetta að raunveruleika, einnig hafa fyrirtæki í bænum stutt við framtakið. Kennarar og nemendur í sjávarútvegfræði við HA hafa einnig komið að þessu verkefni frá upphafi og hafa þar haft það hlutverk að fræða nemendur um hafið. Í erindinu verður sagt frá þróun verkefnisins og farið yfir helstu áskoranir.  

Netfang: hreidar@unak.is 


 

Stofa
L203

Aðferðir sem efla orðaforða og lesskilning nemenda á námsefni í náttúrufræði
Anna Sólveig Árnadóttir, grunnskólakennari í Selársskóla í Reykjavík

Í erindinu verður fjallað um hugmyndir að kennsluaðferðum og viðfangsefnum í náttúrufræði. Þessar aðferðir geta hjálpað nemendum að skilja hugtök og lesmál í námsgreinunum. Sérstök hliðsjón er tekin af námsbókinni Líf á landi, eftir Sólrúnu Harðardóttur þar sem kennsluhugmyndirnar Orðaspjall og Fimm daga ferlið eru ígrundaðar í tengslum við efnið. Þá verður komið inn á hvernig tengja megi Fimm daga ferlið við Læsisfimmuna (Daily 5). Þessar hugmyndir byggja meðal annars á raunprófuðum kennsluaðferðum Beck og McKeown (2001) þar sem markmiðin beinast að því að efla orðskilning, orðaforða, lesskilning, hlustunarskilning og frásagnarhæfni nemenda. Í þessu erindi er byggt á heildstæðri hugsun um hvernig nýta megi námsbók sem best, bæði fyrir nemendur og kennara. Hugmyndirnar sem kynntar eru í erindinu geta hentað í öllum námsgreinum og skólastigum. 

Netfang: anna.solveig.arnadottir@rvkskolar.is 


 

Stofa
L102

Rúm og rými fyrir nýsköpunarsmiðjur í íslenskum grunnskólum
Svava Pétursdóttir lektor við Menntavísindasvið HÍ, Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, aðjúnkt við Menntavísindasvið HÍ og Torfi Hjartarson, lektor við Menntavísindasvið HÍ

Víða í skólum hafa svokallaðar sköpunarsmiðjur (e. makerspaces) verið að ryðja sér til rúms. Í þeim eru unnin og hönnuð skapandi verkefni, með ýmsum verkfærum, stafrænum og hefðbundnum, í fjölbreyttan nýjan eða endurnýttan efniðvið. Forritun og stafrænn búnaður skipar þar oft stóran sess, bæði forritanleg leikföng, þrívíddarprentarar og geislaskerar svo eitthvað sé nefnt. Í MakEY verkefninu höfum við fylgst með hópi sjö kvenna sem hver á sínum vettvangi hefur verið að setja á stofn smiðjur, styðja við kennara eða koma þessum hugmyndum á framfæri með starfsþróunartilboðum. Sérstaklega fylgdumst við með Snillismiðju þar sem ungir nemendur spreyttu sig m.a. við forritun og að kenna jafningjum sínum. Með heimsóknum og viðtölum við hópinn höfum við skoðað hvaða rúm og rými er fyrir þessar smiðjur í skólum. Ljóst er að frjór jarðvegur er fyrir sköpunarsmiðjur með tilliti til hugmynda um skapandi skólastarf, samþættingu með sterka samsvörun við aðalnámskrá. Kennslufræðin sem virðast undirliggjandi stefna að sköpun, sjálfstæði og valdeflingu nemenda. Einnig má ætla að sterk hefð fyrir verklegri kennslu og aðstæðum til hennar í skólum styðji við smiðjuvinnu. Á sama tíma sjáum við að margir þættir þurfa að koma saman til að vel til takist og að skólar og skólasvæði fara ólíkar leiðir að því að koma sköpunarsmiðjum fyrir í stundatöflum nemenda og rými skólanna. Sagt verður frá dæmum um fyrirkomulag, verkefnum, verkfærum og aðstæðum sem sköpunarsmiðjum hefur verið skapað. 

Netfang: svavap@hi.is