Vísindi í námi - málstofulota II

Vísindi í námi og leik

Málstofulota II 
kl. 11.40–12.10


 

Stofa
N102

Hermitól í raungreinakennslu
Haukur Eiríksson, framhaldskólakennari við Verkmenntaskólann á Akureyri

Frá unga aldri lærum við með því að leika okkur og margir leikir byggja á því að við hermum eftir raunveruleikanum. Dúkkuleikir og búðaleikir eru dæmi um slíka leiki en eins má finna dæmi um svipaða hegðun í dýraríkinu. Tæknin býður upp á nýja möguleika til þess að vinna með námsefni þar sem hugbúnaður gerir okkur kleift að herma eftir lögmálum á gagnvirkan hátt. Þannig getum við séð virkni, krafta, rafsvið, segulsvið og mjög smá viðfangsefni sem annars getur verið erfitt að öðlast skilning á. Notkun á hermilíkönum er gjarnan skilgreind sem hluti af raunverulegum verkefnum (e. authentic work) og sem slík falla þau vel inn í áherslur á dýpra nám nemenda. Í erindinu er farið yfir skilgreiningar á hermilíkönum og fjallað um hvernig hægt er að nýta hermitól í kennslu í raungreinum. Tekin eru nokkur dæmi um notkun á hermitólum í kennslu og verkefnavinnu. Lögð er áhersla á að svara spurningum um hvort hermitól geti:

  • hjálpað til við skilning á námsefninu?
  • komið í staðinn fyrir verklega þætti kennslunni?
  • brúað bilið milli fræðilegs námsefnis og verklegra tilrauna?
  • skapað nýja sýn á námsefnið og ný tækifæri?

Umfjöllunin byggist að hluta á starfendarannsókn sem unnin var haustið 2017 í tenglum við meistaraprófsverkefnið: Nýjar væntingar. Hvernig get ég nýtt upplýsingatækni til að bæta nám nemenda minna? En til viðbótar er velt upp framtíðarmöguleikum og farið yfir dæmi um hagnýtingu í kennslu. 

Netfang: haukureir@vma.is 


 

Stofa
M202

Notkun hljóðlausra myndbanda í stærðfræðikennslu
Bjarnheiður Kristinsdóttir, doktorsnemi við Hí, Freyja Hreinsdóttir, dósent við Menntavísindasvið HÍ og Zsolt Lavicza

Hljóðlaus myndbönd eru stuttar teiknimyndir sem sýna stærðfræði á kvikan hátt án orða eða texta. Nemendur fá það verkefni í tveggja manna hópum að undirbúa og taka upp talsetningu við myndbandið. Þeim er bent á að útkoman gæti gagnast samnemendum til að skilja betur stærðfræðina sem sést í myndbandinu. Í næsta tíma getur kennari valið úr úrlausnum eða fengið nemendur til að stinga upp á eigin úrlausnum til að sýna öllum hópnum og leiðir kennari hópumræður í framhaldi af því. Þar gefst tækifæri til að ræða ýmiss konar algengan misskilning eða ónákvæmni í orðalagi sem tengist viðkomandi stærðfræðihugtaki eða -hugtökum. Verkefni sem þessi eru ný af nálinni og markmið rannsóknarinnar er annars vegar að kanna væntingar kennara til þeirra og reynslu þeirra af því að nota þau og hins vegar að skilgreina betur og þróa verkefnin sem slík. Beitt var eigindlegum aðferðum þar sem tekin voru viðtöl við fjóra stærðfræðikennara í jafnmörgum framhaldsskólum á Íslandi; fyrir, á meðan og eftir að verkefni með hljóðlausu myndbandi var unnið í tíma. Valdar niðurstöður sem nú liggja fyrir verða kynntar í erindinu. 

Netfang: bjarnheidur@gmail.com 


 

Stofa
M203

Vísindaleikir um eiginleika efna, vatns, lofts og veðurs
Haukur Arason, dósent við Menntavísindasvið HÍ

Vísindaleikir eru verkleg viðfangsefni fyrir börn á aldrinum fjögurra til sex ára sem hafa það að markmiði að beina athygli þeirra að ákveðnum náttúruvísindalegum fyrirbærum og auka skilning barnanna á þeim. Vísindaleikir eru leikir frá sjónarhóli barnanna en hafa jafnframt ákveðin kennslufræðileg markmið. Í erindinu verða kynntir leikir sem þróaðir hafa verið á síðustu árum og eiga það sameiginlegt að snúast um efni og eiginleika þeirra svo sem hamskipti, efnahvörf, eiginleika vatns og lofts, og um veður. 

Netfang: arason@hi.is


 

Stofa
L202

Fræðsluefni í sjávarútvegi fyrir grunn- og framhaldsskóla
Hörður Sævaldsson, lektor við HA

Sjávarútvegur hefur verið einn af burðarásum íslensks atvinnulífs um langt skeið, en þar hafa breytingar verið hraðar síðustu tvo áratugi, fyrirtækjum fækkað og sjálfvirkni aukist. Samhliða hefur aðgengi einstaklinga að höfnum og fiskiðjuverum verið takmarkað vegna öryggissjónarmiða sem fjarlægir greinina að mestu frá almenningi. Þróun námsefnis sem gefur heildstætt yfirlit um íslenskan sjávarútveg hefur að litlu leyti verið uppfærð til samræmis við þróun greinarinnar. Ágætis efni er til um náttúruna; fjöruna, hafið og lífríki þess, en annað er að mestu frá árinu 1992. Umfangsmikil könnun í framhaldsskólum leiddi í ljós að nemendur höfðu jákvætt viðhorf til sjávarútvegs og þeir skynjuðu mikilvægi hans. Hins vegar fengu þeir takmarkaða fræðslu í grunn- og framhaldsskólum og þeir vildu ekki starfa í sjávarútvegi. Kennarar á þessum námsstigum hafa lýst áhuga á að fjalla um sjávarútveg en til þess þurfi þeir námsefni og þá helst heildstæða lausn; kennslubók, glærur, verkefnabók og tengingu við námsskrá. Miðlun kennsluefnis hefur þróast töluvert með tölvutækni sem kallar á nýjar áskoranir, en opnar jafnframt tækifæri. Við Háskólann á Akureyri hafa verið í gangi nokkur verkefni með námsefni um sjávarútveg fyrir grunn- og framhaldsskóla. Frá sjónarhóli fyrirlesara mun samþætting ólíkra miðla eins og rafbóka og myndbanda leika stórt hlutverk við að opna lokaðan heim sjávarútvegs. Í erindinu verða kynnt nokkur verkefni sem unnið hefur verið að sem og vinnu við innleiðingu þeirri fyrir grunnskólastig.

Netfang: hordurs@unak.is 


 

Stofa
L203

Grenndarkennsla: Vefur um náttúru Skagafjarðar
Sólrún Harðardóttir, sérfræðingur við Háskólann á Hólum, Guðmunda Magnúsdóttir og Jóhanna Sveinbjörg Traustadóttir kennarar í Grunnskólanum austan Vatna

Vefur um náttúru Skagafjarðar, náttúraskagafjarðar.is, er fræðsluefni fyrir stálpaða krakka, unglinga og áhugasaman almenning. Hann er umfangsmikill (liðlega 100 vefsíður) og fjallar um jarðfræðileg fyrirbæri, landslag, byggðalög, örnefni, áhugaverða staði, lífríkið, umgengni mannsins, sjálfbærni og veður, auk þess eru þarna nokkur ljóð og málverk! Á vefnum er líka fjöldi skapandi verkefna. Markmið vefsins er að nemendur:

  • öðlist heildarmynd af náttúru Skagafjarðar
  • þekki séreinkenni náttúrunnar í Skagafirði
  • kynnist náttúruperlum svæðisins
  • noti nánasta umhverfi til þess að læra um náttúruna
  • læri að bera virðingu fyrir náttúrunni
  • finni sig sem part af samfélagi Skagfirðinga sem saman þurfa að gæta þess umhverfis sem næst þeim er og þeir bera ábyrgð á  

Þrátt fyrir að vefurinn eigi sérstaklega erindi við kennara og nemendur í Skagafirði ætti hann að vekja áhuga hjá fleirum því nokkuð af efninu er almennt og á víða við en auk þess hefur efnið auðsætt yfirfærslugildi fyrir aðra landshluta. Þeir sem eru áhugasamir um grenndarkennslu og útinám finna þar efalaust ýmislegt gagnlegt. Vefurinn tengist námsefni, sem Menntamálastofnun/Námsgagnastofnun hefur gefið út og ýmsu öðru fræðandi efni sem vísað er til, svo viðamikið og metnaðarfullt námsefni um afmarkað landsvæði er að öllum líkindum einsdæmi. Höfundurinn Sólrún Harðardóttir sýnir og segir frá vefnum og Guðmunda Magnúsdóttir og Jóhanna Sveinbjörg Traustadóttir greina frá nýtingu hans í kennslu. 

Netfang: solrun@holar.is 


 

Stofa
L102

NeuroPlus - áhrif tölvuleiks á virkni barna með ADHD
Aðalheiður Reynisdóttir, grunnskólakennari við Lundarskóla, Guðmundur Engilbertsson, lektor við HA og Sólveig Zophoníasdóttir, aðjúnkt og sérfræðingur hjá MSHA

Í málstofunni verður gerð grein fyrir rannsókn með tilraunasniði þar sem fylgst var með sjö börnum með ADHD spila tölvuleikinn NeuroPlus í fjórar vikur. Leiknum er ætlað að aðstoða börn að auka athygli sína og slökun og draga úr hvatvísi. Unnið var út frá rannsóknarspurningum:

  • Hvaða áhrif hefur inngrip með tölvuleik sem staðið hefur í fjórar vikur á úthald barna með ADHD?
  • Hvaða áhrif hefur notkun á tölvuleiknum á virkni barna í skólastofunni?

ADHD er alþjóðleg skammstöfun á heitinu Attention Deficit Hyperactivity Disorder og er skilgreind sem röskun á taugaþroska. Aðaleinkenni ADHD eru athyglisbrestur, ofvirkni og hvatvísi en margvíslegar fylgiraskanir geta einnig komið í ljós. Talið er að um 5–8% barna greinist með ADHD en hlutföllin eru ein stúlka á móti tveimur til þremur drengjum. Niðurstöður leiddu í ljós að úthald barna og virkni jókst með notkun tölvuleiksins þar sem þátttakendur náðu að þjálfa upp athygli/einbeitingu, hvatvísi og slökun. Samhliða íhlutuninni fylltu umsjónarkennarar út ofvirknikvarða (e. ADHD Rating Scale) til að kanna hvort þeir merktu breytingar á hegðun nemenda meðan á henni stóð. Listinn metur einkenni athyglisbrests annars vegar og hreyfiofvirkni og hvatvísi hins vegar og var fylltur út í upphafi inngrips og aftur fjórum vikum eftir að inngripi lauk. Þær niðurstöður sýndu að allir þátttakendur voru með færri einkenni ADHD en meðal annars mátti sjá að frammíköll höfðu minnkað og minna var um ráp.  

Netfang: adalheidurr@akmennt.is