Vísindi í námi og leik - málstofulota IV

Vísindi í námi og leik

Málstofulota IV
kl. 14.10–14.40


 

Stofa
N102

Náttúra og menning II

Litlir landkönnuðir á Selfossi
Bragi Guðmundsson, prófessor við HA, Helena Sjørup Eiríksdóttir og Sara Guðjónsdóttir, MEd nemar við HA 

Náttúrulegt umhverfi spilar stórt hlutverk í hverju samfélagi og mikilvægt er að nýta það vel í kennslu þar sem það býður upp á fjölbreytta möguleika. Með því að samtvinna bóklestur og kennslu úti í umhverfinu, til að mynda í vettvangsferðum, verður til árangursrík aðferð við að tengja nútíð við fortíð. Í erindi okkar kynnum við vefsíðu sem inniheldur hugmyndir að útikennslu og sögutengdum viðfangsefnum ásamt verkefnum sem tengjast bæjarfélaginu Selfossi. Vefsíðan er gagnagrunnur fyrir leikskóla og kennara á Selfosssvæðinu þar sem markmiðum aðalnámskrár um grunnþætti menntunar, námssviðum og hæfniviðmiðum er mætt. 

Menning býr í náttúrunni 
Bragi Guðmundsson, prófessor við HA 

„Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt,“ sagði Tómas. Örnefni eru mikilvægur þáttur í menningu og náttúrulegu umhverfi okkar. Sum eru eyktamörk dregin af innbyrðis afstöðu himintungla, önnur vitna um búsæld eða barning, enn önnur tengjast trúariðkun, útliti eða lögun náttúrulegra fyrirbæra, o.s.frv. Allir nota örnefni að einhverju marki en hvernig getum við nýtt þau til náms og kennslu með börnum og unglingum? Í erindinu verða tekin dæmi úr bæjarlandi Akureyrar um örnefni af ólíkum toga og bent á nokkrar leiðir til þess að nota þau sem vegvísi að fjölþættum skilningi á næsta nágrenni þeirra sem bæinn byggja. 

Netfang: bragi@unak.is


 

Stofa
M202

Sýndartilraunir í eðlis- og efnafræðikennslu - Tengsl hugmynda og veruleika
Haukur Arason, dósent við Menntavísindasvið HÍ

Öll náttúrufræðikennsla snýst á einhvern hátt um tengsl hugmynda og veruleikans, fræðilegar hugmyndir náttúrufræða eiga að lýsa og útskýra raunveruleg fyrirbæri. Þetta samspil endurspeglast í tengslum verklegrar og fræðilegrar kennslu. Sýndartilraunir (e. virtual laboratory, interactive simulation) eru kostur sem náttúrufræðikennurum býðst í æ ríkari mæli. Þar kemur til útbreiðsla tölvutækni í skólum ásamt framboði á sýndartilraunum. Sýndartilraunir eru í einhverjum skilningi millistig milli fræðilegra hugmynda og veruleikans. Í erindinu verður fjallað um það hvernig nýta má sýndartilraunir í eðlis- og efnafræðikennslu, þá möguleika sem þær bjóða upp á, þá kosti og galla sem þær geta haft og samspil þeirra við fræðilega kennslu og verklega kennslu.

Netfang: arason@hi.is


 

Stofa
M203

DILE – upplýsingatækni í leikskólum á Norðurlöndum
Svava Pétursdóttir, lektor við Menntavísindasvið HÍ 

Upplýsingatækni býður upp á nýjar leiðir í námi og skapandi starfi á öllum skólastigum og á allra síðustu árum hafa sveitarfélög, mörg hver, lagt aukna áherslu á möguleika fólgna í notkun fartækni í leikskólastarfi, spjaldtölvur og snjallsíma, og raunar fleira tengt tækni í skapandi leik. Samstarfsnet byggt á NordPlus-verkefninu DILE (Digital Learning in Preschool) hefur leitast við að þróa og rannsaka notkun stafrænna verkfæra í leikskólum. Þátttakendur eru leikskólakennarar, stjórnendur leikskóla á sveitarstjórnarstiginu og rannsakendur frá öllum Norðurlöndunum. Til að kortleggja og efla notkun á spjaldtölvum og öðrum stafrænum verkfærum í leikskólum eru rýnd fyrirliggjandi skrif, leikskólar og háskólar í fimm löndum sóttir heim, rætt við starfsfólk og skipst á hugmyndum og reynslusögum á alþjóðlegum fundum, samfélagsmiðlum og þar til gerðum vef. Þróunarstarf og tilraunir hafa gefist vel; tæknin kemur að miklu gagni í sérkennslu og í almennu starfi gengur vel að ýta undir ýmiss konar ígrundun barnanna, samskipti, miðlun og sköpun, ekki síst með myndatökum og ýmsu sem þeim tengist. Tæknin kemur líka að góðum notum við skráningu á uppeldisstarfinu og í samstarfi við foreldra. Hér verður sagt frá ýmsu því sem verkefnið hefur skilað og greint frá helstu leiðum sem leikskólakennararnir hafa farið við að flétta stafræna tækni inní starfið í leikskólanum.

Netfang: svavap@hi.is


 

Stofa
L202

Nýtt alþjóðlegt námskeið, tilurð, þróun og upplifun nemenda
Vera Kristín Vestmann Kristjánsdóttir, aðjúnkt við HA og Hafdís Björg Hjálmarsdóttir, lektor við HA

Viðskiptadeild Háskólans á Akureyri er þátttakandi í samstarfsnetinu Nobanet, en í netinu eru háskólar á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. Háskólinn á Akureyri býður uppá sveigjanlegt nám. Í stefnumótun háskólans fyrir árin 2018 – 2023 er lögð áhersla á að fjölga námskeiðum sem kennd eru á ensku. Með þetta að leiðarljósi, tóku höfundar þátt, ásamt samstarfsfélögum í Nobanet samstarfsnetinu, í vinnu við gerð alþjóðlegs námskeiðs. Í erindinu er gerð grein fyrir því hvernig sú vinna fór fram, hvernig námskeiðið var þróað og uppbygging þess kynnt. Stuttlega verður gerð grein fyrir kennsluumhverfinu Eliademy, sem varð fyrir valinu og þótti henta best námskeiði sem þessu. Í byrjun var lagt upp með að geta boðið námskeiðið eða hluta þess í öllum skólum samstarfsnetsins og helst víðar og er því námskeiðið á ensku. Fyrirmynd af námskeiðinu er svokallað massive-open-online-course (mooc) námskeið. Námskeiðið eru 10 ECTS einingar, það inniheldur fjölbreytt kennsluefni, myndbönd og greinar sem nemendur vinna á sínum hraða. Markmið námskeiðsins er að veita nemendum þekkingu um helstu grunnþætti viðskipta á netinu (e-buisness) og efla kunnáttu sem snýr að notkun tækja og tóla þar að lútandi. Nemendur í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði við viðskiptadeild HA tóku námshluta í námskeiðinu á vorönn 2018 og sömuleiðis nemendur í öðrum löndum s.s. Finnlandi og Eistlandi. Eftir sérhvern námshluta voru nemendur beðnir um að svara könnun, sem snéri að efni námskeiðshlutans, verkefnum, lesefni og öðru. Þetta var gert til þess að kanna hvort að hæfniviðmiðum og markmiðum viðkomandi hluta væri náð. Einnig var markmiðið að kanna hvernig nemendum fannst að vinna með þessum hætti, sjálfstætt í alþjóðlegu umhverfi. Í erindinu verður gerð grein fyrir niðurstöðum kannanna meðal nemenda, og sagt frá reynslunni af því að vinna með sama námsefni og námshluta í ólíkum löndum.

Netfang: verak@unak.is


 

Stofa
L203

Skólar á grænni grein - Áfangi í umhverfisstjórnun á framhaldsskólastigi
Katrín Magnúsdóttir, sérfræðingur hjá Landvernd og Margrét Auðunsdóttir, framhaldsskólakennari við Verzlunarskóla Íslands

Í áfanganum kynnast nemendur verkferlum umhverfisstjórnunar og læra að nýta sér þætti umhverfisstjórnunarkerfis sem verkefnið Skólar á grænni grein byggir á. Áfanginn er í grunninn nemendastýrður. Kennari hefur utanumhald með áfanganum og kemur að honum sem leiðbeinandi og aðstoðarmaður en nemendur sjá fyrst og fremst um alla framkvæmd. Við áfangann er hugtakið geta til aðgerða haft að leiðarljósi. Í getu til aðgerða er lýðræðislegum vinnubrögðum beitt í námi svo nemendur geti haft áhrif á hvernig, hvenær, hvar og hvað þeir læra. Einnig felst í því að virkja nemendur til aðgerða innan skólans og síns nærsamfélags. Í áfanganum geta nemendur því beitt áhrifum sínum á aðgerðamiðaðan hátt í átt að aukinni sjálfbærni innan skólans og jafnvel nærsamfélags. Nemendur fá jafnframt dýpri innsýn inn í fjölmörg málefni sem tengjast sjálfbærni og umhverfismálum t.d. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Lokaafurð áfangans er umsókn um grænfána og markmiðið að flagga fánanum í lok áfangans. Verið er að prufukeyra áfangann í Verzlunarskóla Íslands. Hann er á hæfniþrepi tvö og fá nemendur þrjár einingar fyrir hann. Um er að ræða valáfanga fyrir nemendur á 2. og 3. ári á öllum námsbrautum skólans.

Netfang: katrin@landvernd.is


 

Stofa
L102

Opin stundartafla og samþætting námsgreina
Ingibjörg Stefánsdóttir, Íris Aðalsteinsdóttir, Ursula Ásgrímsdóttir og Berglind Þráinsdóttir, grunnskólakennarar í Grundaskóla á Akranesi

Í vetur hafa kennarar á unglingastigi í Grundaskóla kennt eftir opinni stundatöflu með áherslu á samþættingu námsgreina. Með opinni stundatöflu er átt við að engar námsgreinar eru fastar í töflu heldur er stundataflan hönnuð utan um verkefnin hverju sinni. Með þessum hætti gefst nemendum tækifæri til að öðlast dýpri og betri skilning á náminu. Viðfangsefnin hafa verið fjölbreytt og með þvi að nálgast námið á þennan hátt sjá nemendur oft aukinn tilgang með náminu.  Einnig höfum við fengið töluvert af gestum til okkar frá félagasamtökum og úr atvinnulífinu í tengslum við þau viðfangsefni sem við erum að vinna.

Með því að hafa þetta svigrúm sem opin stundatafla veitir verður náttúrufræðikennslan mun markvissari og skemmtilegri. Tæknina höfum við líka nýtt í þessum verkefnum ýmist til að kafa dýpra í efnið eða til að auka möguleika á skapandi verkefnaskilum. Námsmatið hefur einnig verið af ýmsum toga, þar sem nemendur, foreldrar og kennarar koma að matinu.

Í erindinu munum við einnig fara yfir hvað hefði mátt gera betur. Hvaða ljón eru í veginum og hvert viljum við stefna.

Netfang: ingibjorg.stefansdottir@grundarskoli.is