Samræðurfélagar - Talking Partners
Aðferðin Samræðufélagar gerir nemendum kleift að þroska samskipti sín og hæfileika í tjáningu og hlustun. Hún byggir á þekktum leiðum, meðal annars á kenningum Vygotsky´s um svæði hins mögulega þroska. Árangurinn af aðferðinni hefur verið góður, hún gefur nemendum tækifæri til að auka grunnfærni í samskiptum. Samræðufélagar var upphaflega þróað í Bretlandi fyrir nemendur sem voru að læra ensku sem annað mál. Hins vegar hentar það líka öðrum nemendum sem þurfa að þjálfa samræður. Verkefnið var þýtt af Rannveigu Sigurðardóttur og Rúnari Sigþórssyni.
Samræðufélagaaðferðin hefur verið rannsökuð bæði í Bretlandi en einnig nú á Íslandi. Breskar rannsóknir hafa gefið mjög jákvæðar niðurstöður, nemendum sem hafa farið í gegnum 10 vikna námskeiðið hefur farið mikið fram. Á Íslandi er ein rannsókn í gangi um þessar mundir TALÍS – að tala og læra íslensku í skólum þar sem árangur Samræðufélaga á nemendur er skoðaður. Fyrstu niðurstöður sýna framfarir.
Samræðufélagar er sett upp sem þrjú ólík námskeið eftir aldri nemenda:
- TP@primary fyrir nemendur í leikskóla (5-6 ára)
- TP@primary fyrir nemendur í grunnskóla (6-12 ára)
- TP@secondary fyrir nemendur í grunn- og framhaldsskóla (12-19 ára)
Aðferðin er nokkuð ólík eftir skólastigum.
Í leikskólanum (TP@primary) felur aðferðin í sér 10 vikna íhlutunarkennslu þar sem 3 börn hitta kennarann fimm sinnum í viku í 15 mínútur í senn. Hverri kennslustund er skipt upp í eitt tíu mínútna verkefni auk 5 mínútna upphitunar.
Í grunnskólanum (TP@primary) felur aðferðin í sér 10 vikna íhlutunarkennslu þar sem 3 börn hitta kennarann þrisvar sinnum í viku í 25 mínútur í senn. Hverri kennslustund er skipt upp í tveggja tíu mínútna verkefni auk 5 mínútna upphitunar. Öll verkefnin í TP@primary tengjast bekkjarvinnunni en aðferðirnar hverju sinni eru nokkuð fastmótaðar. Þó innan ákveðinna marka þar sem kennarinn velur hvað hann vill gera útfrá fyrirfram gefnu skipulagi. Það er því regla og skipulag í ferlinu sem mikilvægt er að fara eftir.
Í grunn- og framhaldsskólanum (TP@secondary) felur aðferðin í sér 10 vikna íhlutunarkennslu þar sem 3 börn hitta kennarann tvisvar sinnum í viku, annars vegar í 60 og hins vegar í 30 mínútna kennslustund. Fyrri kennslustundin er eins konar innlögn og verkefnavinna á meðan sú seinni er hugsuð sem eftirfylgni. Eftirfylgnin er þannig hugsuð að hún getur bæði gengið sem seinni tími af tveimur fyrir þessa þrjá nemendur eða farið fram inni í bekk og gagnast þá öllum nemendum í stofunni. Eftirfylgnin krefst því ekki að grunnvinnan hafi verið unnin fyrir almennan nemanda en fyrir íhlutunarhópinn er hún mjög mikilvæg.
Markhópur:
Kennarar í leik-, grunn- og framhaldsskólum
Umfang:
Tveggja daga námskeið (2x8 klst)
Lýsing:
Farið er yfir aðferðafræðina sem verkefnið byggir á auk þess sem vel er farið í alla þætti kennslunnar frá tíma til tíma og viku til viku. Kennarar TP@primary hafa meira frelsi til að nýta efni úr bekkjarstarfinu á meðan kennarar í TP@secondary fá í raun eins konar handrit sem farið er eftir.
Markmið
- Að kennarar öðlist þjálfun í að kenna eftir aðferðarfræði Samræðufélaga
- Að nemendur auki annars og þriðja lags orðaforðann sinn og nái að nýta hann í tjáningu
- Að hjálpa nemendum að verða sjálfstæða í samræðum (tjáningu og hlustun) og þori að taka áhættu með þátttöku sinni í verkefnum
- Að hvetja nemendur til að stýra samræðum sjálf eftir því sem á líður
- Að gefa nemendum tækifæri til að nota tungumálið þar sem ákveðin markmið eru höfð í huga
Fyrirkomulag
Kennarar taka tveggja daga námskeið og fá að því loknu afhent námsefni til notkunar í kennslunni. Þeir eru þá tilbúnir að finna þrjú börn og kenna þeim eftir aðferðinni í 10 vikna íhlutunarlotu.
Matstæki:
Áður en íhlutun hefst og eftir að henni er lokið er orðaforðaprófið Renfrew lagt fyrir nemendur. Niðurstöðurnar eru nýttar sem matstæki.