Flýtilyklar
Byrjendalæsi
|
|
Byrjendalæsi
Valkostur í kennslu læsis við upphaf grunnskóla
Tilurð og markmið
Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri hefur staðið að þróun kennsluaðferðarinnar Byrjendalæsi í samvinnu við skóla víðs vegar um land frá árinu 2004. Höfundur og forystumaður um innleiðingu aðferðarinnar er Rósa Eggertsdóttir.
Byrjendalæsi er samvirk nálgun til læsiskennslu barna 1. og 2. bekk og innifelur bæði eindaraðferðir og heildaraðferðir. Byrjendalæsi byggir á aðferðum sem rannsóknir hafa leitt í ljós að skila árangri í læsisnámi barna. Við samsetningu Byrjendalæsis var meðal annars stuðst við kenningar Gudschinsky, Frost, Rumelhart, Solity og Leimar. Ennfremur var sótt til NRP2000 rannsóknarinnar þar sem kemur fram mikilvægi þess að kennsluaðferðir í læsi feli í sér nálgun sem nái til allra þátta móðurmálsins. Þannig er vinna með tal, hlustun, lestur og ritun felld í eina heild undir hatti læsis. Ennfremur eru sértækir þættir tungumálsins, svo sem hljóðvitund, réttritun, skrift, orðaforði og lesskilningur tengd inn í ferlið.
Meginmarkmið Byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í læsi sem allra fyrst á skólagöngu sinni. Þegar börn hefja nám í 1. bekk eru þau misjafnlega á vegi stödd. Sum þekkja stafi, önnur eru farin að lesa og svo er hópur sem þarf að læra alla stafina og hvernig á að vinna með þá. Byrjendalæsi gerir ráð fyrir því að hægt sé að kenna börnum sem hafa ólíka færni í lestri hlið við hlið og því er lögð áhersla á samvinnu um leið og einstaklingsþörfum er mætt.
Hér má finna Kynningarmyndband um Byrjendalæsi sem gefið var út 2007 og sýnir hvernig aðferðin er uppbyggð og útfærð í skólastarfi.
Innleiðing aðferðar og starfsþróun
Aðferðir Byrjendalæsis eru um margt frábrugðnar þeim vinnubrögðum sem kennarar hafa vanist. Öflugur stuðningur í starfi er því mikilvægur fyrir kennara sem hefja kennslu eftir aðferðinni. Miðstöð skólaþróunar hefur sett fram starfsþróunarlíkan sem lýsir hvernig fræðslu og stuðningi er háttað við innleiðingu aðferðarinnar (sjá töflu hér að neðan). Ráðgjafar frá miðstöð skólaþróunar halda námskeið og námssmiðjur og vinna með kennurum í skólum. Kennarar hittast á milli skóla og skólar mynda gjarnan samstarfsnet um verkefnið innan svæða. Gert er ráð fyrir að hver skóli mennti eigin leiðtoga í Byrjendalæsi. Hlutverk hans er að leiða starfið innan skólans og vera kennurum til stuðnings og leiðsagnar. Leiðtoginn sækir námskeið og nýtur handleiðslu frá miðstöð skólaþróunar í tvö ár. Leiðtogi er oftast kennari í viðkomandi skóla en á fámennum svæðum geta skólar sameinast um leiðtoga og getur leiðtogi þá jafnvel verið starfsmaður skólaskrifstofu á viðkomandi svæði.
Fræðilegt og hagnýtt efni er aðgengilegt þátttakendum í verkefninu, sameiginlegur gagnabanki þátttakenda er á vefsvæði og þátttakendur eru með lokað svæði á samskiptasíðunni Facebook.
Ráðstefna um Byrjendalæsi er haldin annað hvert haust í Háskólanum á Akureyri í tengslum við Dag læsis.
Tveggja ára starfsþróunarferli
Þróunarstarf 1. ár - kennarar |
Þróunarstarf 2. ár - kennarar |
|
|
Þróunarstarf 1. ár leiðtogar |
Þróunarstarf 2. ár - leiðtogar |
|
|
Að loknu innleiðingarferli
Markmið með starfsþróun í skólum er að stuðla að betri árangri í skólastarfi. Rannsóknir sýna að raunverulegar breytingar á skólastarfi taka talsverðan tíma, allt að fimm til tíu ár taki að festa þær í sessi. Með þátttöku í þróunarstarfi Byrjendalæsis taka kennarar þátt í lærdómsferli, þeir ígrunda eigið starf og tileinka sér nýja þekkingu og færni við læsiskennsluna. Komið hefur í ljós að tveggja ára formlegur stuðningur frá HA er oft varla nógu lengur tími og hafa skólar óskað eftir áframhaldandi stuðningi við verkefnið.
Miðstöð skólaþróunar býður upp á eftirfarandi samstarfsmöguleika að loknu innleiðingarferli:
Námskeið fyrir staka skóla eða skólahverfi – heill dagur: |
|
Heimsóknir frá ráðgjafa HA í skóla. |
|
Menntun nýs leiðtoga í þeim tilgangi að styrkja starfið í skólanum. |
Sjá lýsingu á menntun leiðtoga hér fyrir ofan. |