Forysta og leiðtogafærni - að byggja upp og þróa lærdómssamfélag

Forysta og leiðtogafærni - að byggja upp og þróa lærdómssamfélag

Skólastarf er síbreytilegt og lifandi þar sem mismunandi ytri og innri þættir hafa áhrif á nám og starf starfsmanna og nemenda og þróun skóla sem stofnana. Árangursrík og fagleg starfsþróun byggist á styðjandi, gagnrýnu og uppbyggjandi hugarfari og vinnubrögðum í starfinu sjálfu og sem hluti af því með áherslu á almenna virka þátttöku og forystuhæfni. Menning sem styður við slíka starfshætti og viðheldur þeim getur rúmast innan þess sem kalla má lærdómssamfélag (e. professional learning community). 

Áherslumunur getur verið á einstökum skilgreiningum á hugtakinu lærdómssamfélag en samstaða virðist vera meðal fræðimanna um að mikilvægustu einkenni þess séu: sameiginleg ábyrgð á námi og árangri nemenda sem markmiða alls skólastarfs, sameiginleg sýn og gildi, starfsþróun og samvirk fagmennska sem birtist meðal annars í skipulegum félagastuðningi, teymiskennslu og lausnamiðaðri samræðu, ígrundun og þekkingarsköpun. Enn fremur má nefna stjórnskipulag og forystu sem setur umbætur á oddinn og leitast við að valdefla (e. empower) kennara sem umboðsmenn breytinga (e. agents of change) og skapa þeim starfsumhverfi sem miðar að tengslamyndun og samvinnu (DuFour og Fullan, 2013; Hargreaves og Fullan, 2012). Þannig er hugmyndafræði lærdómssamfélaga nátengd hugmyndum um fagmennsku og starfsþróun en sýnt hefur verið fram á að það eru kennarar og stjórnendur sem eru skuldbundnir hugmyndafræðinni sem einkum stuðla að varanlegum breytingum og námi (Fullan og Hargreaves, 2016). 

Ef nám er lykilhugtak í skólastarfi mætti líta á lærdómssamfélag sem yfirhugtak eða umgjörð til að efla nám í skólum. Til staðar er lærdómssamfélag þegar samhugur er innan stofnunar eða skóla um það að byggja stöðugt upp nýja þekkingu og nýta hana á vettvangi. Þar vinnur fólk náið saman út frá mótaðri námssýn sem allir skilja á sama hátt. Allt starfsfólk hefur miklar væntingar til nemenda og ber sameiginlega ábyrgð á námi þeirra en einnig hvað á annars námi. Það rannsakar starf sitt og ígrundar það í þeim tilgangi að efla það og stuðla að auknum námsárangri allra nemenda. 

Í þróunarverkefninu verður fjallað um hvernig skólamenning það er sem ýtir undir nám allra og stuðlar að starfsþróun. Hvað þarf að vera til staðar og hvernig má hlúa að því? Fjallað verður um hagnýt verkfæri sem nýta má í þeim tilgangi og leitað leiða til að þróa teymisvinnu, markvissa ígrundun og jafningjastuðning sem verkfæri í lærdómssamfélagi. Einnig verður unnið með matstæki  til að meta lærdómssamfélag. 

 

 

 

 

 

 

 

 

Markhópur:
Kennarar í leik-, grunn- og framhaldsskólum


Umfang:
Þróunarverkefni. Tíminn sem fer í verkefnið er metinn og ákveðinn í samráði við stjórnendur og starfsfólk viðkomandi skóla en reikna má með því að verkefnið sé að lágmarki til tveggja ára.


Lýsing:
Í þróunarverkefninu verður fjallað um hvernig skólamenning það er sem ýtir undir nám allra og stuðlar að starfsþróun. Hvað þarf að vera til staðar og hvernig má hlúa að því? Fjallað verður um hagnýt verkfæri sem nýta má í þeim tilgangi og leitað leiða til að þróa teymisvinnu, markvissa ígrundun og jafningjastuðning sem verkfæri í lærdómssamfélagi. Einnig verður unnið með matstæki  til að meta lærdómssamfélag. 


Markmið:

  • Að til sé sameiginleg sýn, skýr leiðarlýsing, sameiginleg gildi og markmið þar sem áherslan er alltaf á nám og árangur nemenda.
  • Að skapa samstarfsmenningu með áherslu á nám.
  • Að áhersla sé á athafnabundið nám nemenda og starfsfólks.
  • Að mat á starfi og starfsháttum sé reglubundinn hluti af starfs stjórnenda og kennara og úrbóta leitað með kerfisbundnum hætti.
  • Að áhersla á árangur einkenni menningu.
  • Að allir skuldbindi sig til að leggja sitt af mörkum til stöðugrar þróunar og umbóta.

Fyrirkomulag:
Vinnan hefst með heils dags fræðslu og vinnudegi að hausti þar sem gerð eru drög að framkvæmdaáætlun. Í kjölfarið er unnið með einstök teymi í skólum þar sem áhersla er lögð á að byggja upp traust og skipulögð vinnubrögð í teymum ásamt því að vinna með einstaka þætti í menningu skóla þar sem markmiðið er að einkenni þeirra fari saman við áherslur lærdómssamfélagsins.


Matstæki

Matstæki fyrir lærdómssamfélag 

Lærdómssamfélag grunnskóla - stöðumat

Breyting á skólamenningu - leikskólar

Mælitæki fimm vídda faglegs lærdómssamfélags í leikskólum