Flýtilyklar
Forysta og leiðtogafærni - að byggja upp og þróa lærdómssamfélag
Forysta og leiðtogafærni
AÐ BYGGJA UPP OG ÞRÓA LÆRDÓMSSAMFÉLAG
Skólastarf er síbreytilegt og lifandi þar sem mismunandi ytri og innri þættir hafa áhrif á nám og starf starfsmanna og nemenda og þróun skóla sem stofnana. Árangursrík og fagleg starfsþróun byggist á styðjandi, gagnrýnu og uppbyggjandi hugarfari og vinnubrögðum í starfinu sjálfu og sem hluti af því með áhersla á almenna virka þátttöku og forystuhæfni. Menning sem styður við slíka starfshætti og viðheldur þeim getur rúmast innan þess sem kalla má lærdómssamfélag (e. professional learning community).
Ef nám er lykilhugtak í skólastarfi mætti líta á lærdómssamfélag sem yfirhugtak eða umgjörð til að efla nám í skólanum. Til staðar er lærdómssamfélag þegar samhugur er innan stofnunar eða skóla um það að byggja stöðugt upp nýja þekkingu og nýta hana á vettvangi. Þar vinnur fólk náið saman út frá mótaðri námssýn sem allir skilja á sama hátt. Allt starfsfólk hefur miklar væntingar til nemenda og ber sameiginlega ábyrgð á námi þeirra en einnig hvað á annars námi. Það rannsakar starf sitt og ígrundar það í þeim tilgangi að efla það og stuðla að auknum námsárangri hjá nemendum.
Á námskeiðinu verður fjallað um hvernig skólamenning það er sem ýtir undir nám allra og stuðlar að starfsþróun? Hvað þarf að vera til staðar og hvernig má hlúa að því? Fjallað verður um hagnýt verkfæri sem nýta má í þeim tilgangi og leitað leiða til að þróa teymisvinnu, markvissa ígrundun og jafningjastuðning sem verkfæri í lærdómssamfélagi. Einnig verður unnið með matstæki til að meta lærdómssamfélag. Vinnan hefst með heils dags fræðslu og vinnudegi að hausti þar sem gerð eru drög að framkvæmdaáætlun. Í kjölfarið eru fjórir eftirfylgnifundir, tölvupóstsamskipti við ráðgjafa þess á milli og lokafundur að vori.