Læsi

Læsi á leik- og grunnskólastigi
 

Löngum hefur læsi verið tengt við þá kunnáttu og færni að fólk geti fært hugsanir sínar í letur og skilið prentaðan texta. Með tímanum hafa hugmyndir manna um læsi breyst. Fræðafólk í ýmsum greinum hefur með rannsóknum sínum varpað ljósi á hvernig læsi hefur breyst í áranna rás og er ekki eingöngu bara færnin við að umskrá og skrifa.

Læsi snýst um samkomulag um málnotkun og merkingu orða í málsamfélagi og er því félagslegt í eðli sínu. Það eru ekki eingöngu rannsóknir á læsi sem hafa breytt afstöðu fólks til þess, stafræn tækni hefur haft mikil áhrif. Tölvur og stafræn samskiptatækni eru orðin jafn sjálfsögð verkfæri í daglegu lífi fólks. Tæknin býður upp á að nota fleiri mál við nám og kennslu. Stafrænt læsi, miðlamennt og miðlalæsi eru hluti af læsiskennslu nútímans.

Þrátt fyrir ný og öflug verkfæri sem nýta má í skólastarfi þá dregur það ekki úr mikilvægi ritunar og lesturs í hefðbundnum skilningi. Meginmarkið læsis er og verður að efla
nemendur í að vera virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa
með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á.

Miðstöð skólaþróunar býður leik- og grunnskólum upp á þróunarverkefni sem miða að því að efla læsiskennslu á öllum skólastigum. Í þróunarverkefnunum er leitast við að stuðla að aukinni áherslu á læsi í öllu skólastarfi, samfellu í námi, námsaðlögun og fjölbreyttara og markvissara mati á læsi. Í verkefnunum er lögð áhersla á læsi sem grunn að námi og flæðir læsið inn í allt skólastarf.


Læsi í leikskóla

Þróunarverkefni lagað að þörfum hvers skóla. Byggt á hugmyndum um bernskulæsi, það er að börn tileinki sér grundvallarfærni í læsi með því að læra af umhverfinu og samskiptum við aðra. Þátttakendur læra að styðja við læsisnám barna með því að skapa læsishvetjandi leikaðstæður og hvetja til fjölbreyttra samskipta í barnahópnum. Farið verður yfir hvernig hægt er að auðga leik barna með læsishvetjandi leikföngum og efnivið og þátttöku fullorðinna í leiknum. 

Mikil áhersla er lögð á vinnu með barnabækur, gildi barnabóka í leikskólastarfi og hvernig hægt er að nýta þær í vinnu með málrækt og læsi. Farið er yfir hvernig tengja má alla helstu þætti læsis inn í þemavinnu út frá barnabókum, það er tjáningu, hlustun, orðaforða, hljóðkerfisvitund, málnotkun og ritun. Lögð er áhersla á að tengja starfið við námskrá skólans og vinna á skapandi hátt út frá námsviðunum með leik og áhugahvöt barnanna að leiðarljósi. 

Ef skólar hafa áhuga á upplýsingatækni í bland við læsi má einnig fjalla um hægt er að nýta snjalltæki sem verkfæri í skapandi vinnu með málrækt og læsi í leikskóla. 

Nánari upplýsingar um þróunarstarf um læsi í leikskólum.


Byrjendalæsi - læsi í 1.-4. bekk

Byrjendalæsi er samvirk nálgun í læsiskennslu barna 1. og 2. bekk. Byrjendalæsi sækir innblástur til kenninga um hugsmíðahyggju og nám án aðgreiningar og gert er ráð fyrir að börn læri best í samfélagi jafningja, með samvinnu, stigskiptum stuðningi og hvers konar námsaðlögun sem auðveldar kennurum að koma til móts við ólíkar þarfir þeirra og áhugasvið. Við samsetningu Byrjendalæsis var meðal annars stuðst við kenningar Gudschinsky, Frost, Rumelhart, Solity og Leimar. Ennfremur var sótt til NRP2000 rannsóknarinnar þar sem kemur fram mikilvægi þess að kennsluaðferðir í læsi feli í sér nálgun sem nái til allra þátta móðurmálsins.

Í Byrjendalæsi er vinna með tal, hlustun, lestur og ritun felld í eina heild undir hatti læsis. Ennfremur eru sértækir þættir tungumálsins, svo sem hljóðvitund, réttritun, skrift, orðaforði og lesskilningur tengd inn í ferlið.

Nánari upplýsingar um Byrjendalæsi.
Leiðtoganám í Byrjendalæsi - smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.
 


 Læsi fyrir lífið - læsi í 5.-10. bekk

Þróunarverkefnið Læsi fyrir lífið miðar að því að efla læsiskennslu á mið- og unglingastigi með fjölbreyttum aðferðum. Aðferðin byggir á að nýta samvirkar læsiskennsluaðferðir og samþætta vinnu með orðaforða, lesskilning, lesfimi, ritun, samræðu, tjáningu og hlustun í skólastarfi.   Í verkefninu Læsi fyrir lífið er unnið með læsi þvert á námsgreinar og fá kennarar leiðsögn og þjálfun í að kafa dýpra í viðfangsefni með nemendum og nota verkfæri á borð við gagnvirkan lestur, hugtakagreiningu, ritunarramma, samræður o.fl. til að efla skilning og nám nemenda.   

Lögð er áhersla á að kennarar og nemendur tileinki sér fjölbreyttar og hagnýtar aðferðir sem rannsóknir hafa sýnt að séu árangursríkar í að efla læsi.

Nánari upplýsingar um læsi fyrir lífið.