Fréttir

Árangursríkt lestrarnám barna með dyslexíu

Fræðslufundur haldinn að Sólborg við Norðurslóð, 26. maí 2011 kl. 16.30 í M-202 Fyrirlesari: Anna G. Thorarensen, sérkennari Erindið byggir á samnefndu meistaraprófsverkefni frá HA vorið 2010 Í erindinu verður greint frá rannsókn á lestarnámi þriggja barna sem eiga í lestrarerfiðleikum. Rannsakað var hvernig til tókst þegar þau fóru á lestrarnámskeiðið “Fyrstu skrefin” (e. Early steps) og þeim kennt daglega í samræmi við niðurstöður lesgreiningar. Þátttakendur í tilraunaverkefninu voru börn úr 2. bekk grunnskóla.  Á námskeiðinu var hver kennslustund fjórskipt og áhersla lögð á lestur, endurlestur, orðavinnu, æfingar í hljóðkerfisvitund, stafsetningu og ritun. Rannsóknarspurningin er: Hvaða árangri má ná með lestrarkennsluaðferðinni Fyrstu skrefin með þrem sjö ára börnum sem eiga í lestrarerfiðleikum, sé þeim kennt í 40 kennslustundir? Kennslan bar árangur. Börnin lærðu að þekkja bókstafi og hljóð þeirra svo til alveg. Þau lærðu að hljóða sig gegnum orð og tóku miklum framförum í sjónrænum lestri. Early steps kerfið gerir að jafnaði ráð fyrir 60 kennslustundum með viðeigandi stuðningi (sömu aðferð) að því loknu.  Í ljós kom að 40 stundir reyndust börnunum mjög góð byrjun en ekki nógu langt til að þau gætu sjálf haldið áfram að efla lestrargetu sína. Sjálfsnám er ekki um að ræða hjá börnum á þessum aldri svo að þau þurfa áframhaldandi og viðeigandi aðstoð á sömu braut. Sjálfstraust og ánægja nemenda var áberandi eftir því sem leið á námskeiðið.