Fréttir

Viðmót kennara og áhrif þess á námsumhverfi barna í leikskólum. “Ef stefna skólans slær ekki í takt við hjarta þitt ber hún lítinn sem engan árangur”

Fræðslufundur verður haldinn fimmtudaginn 4. nóvember kl. 16:30. Þar flytur Drífa Þórarinsdóttir, deildarstjóri á leikskólanum Kiðagili á Akureyri fyrirlestur um viðmót kennara og áhrif þess á námsumhverfi barna í leikskólum. Fundurinn er haldinn í húsnæði Háskólans á Akureyri, Sólborg við Norðurslóð í stofu L101 og er öllum opinn. Megintilgangur verkefnisins var að kanna viðmót leikskólakennara, áhrif þess á námsumhverfi barna og skilning kennara á eigin viðmóti. Þá var kannað hvort viðmót kennara geti verið háð agastefnu skólans og starfsreynslu kennara. Kveikjan að verkefninu var áhugi höfundar á samskiptum kennara og barna í skólum. Ef litið er til rannsókna á samskiptun kennara og barna í skólastofunni þá hefur komið fram að viðmót kennara skiptir miklu máli og hefur áhrif á nám og þroska barna. Í málstofunni verður stuttlega gerð grein fyrir fræðilegum þáttum sem lagðir voru til grundvallar í rannsókninni og niðurstöður rannsóknarinnar kynntar.

Þetta snýst allt um viðhorf – stjórnun og skipulag kennslu barna með sérþarfir á yngsta stigi grunnskólans

Fræðslufundur verður haldinn fimmtudaginn 14. október kl. 16:30. Þar flytur Anna Kolbrún Árnadóttir, deildarstjóri sérkennslu í Síðuskóla á Akureyri fyrirlestur um stjórnun og skipulag kennslu barna með sérþarfir á yngsta stigi grunnskólans. Fundurinn er haldinn í húsnæði Háskólans á Akureyri, Sólborg við Norðurslóð í stofu L101 og er öllum opinn. Á Íslandi starfa grunnskólar eftir hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar. Lög og reglugerðir styðja við hugmyndafræðina ásamt skólastefnum sveitarfélaga. Hugmyndafræðin um skóla án aðgreiningar gerir kröfur um að skólar og kennarar aðlagi bæði námsefni og kennsluhætti að stefnunni. Á fundinum verður sagt frá rannsókn sem ætlað var að varpa ljósi á hvernig stjórnun og skipulagi kennslu er háttað á yngsta stigi grunnskólanna á Akureyri og að skoða hvort stjórnun og skipulag kennslunnar samræmist íslenskum lögum, alþjóðlegum reglugerðum sem Íslendingar eru aðilar að og skólastefnu Akureyrarbæjar. Aðferðin við rannsóknina fólst í hálfopnum viðtölum sem sem tekin voru á tímabilinu nóvember 2009 til febrúar 2010. Þátttakendur í rannsókninni voru fjórir sérkennarar, fjórir umsjónarkennarar og fjórir skólastjórar.