03.12.2012
Fimmtudaginn 22. nóvember sótti starfsfólk Grunnskólans í Borgarnesi miðstöð skólaþróunar HA heim. Starfsfólkið
hlustaði m.a. á fyrirlestur um hvað það er sem einkennir einstaklingsmiðað skólastarf og hvað þarf til svo hægt sé að tala um
einstaklingsmiðun og tók þátt í umfjöllun um verkfæri eins og jafningjastuðning og teymisvinnu. Í lok dagsins var lögð
áhersla á að kynna og rifja upp fjölbreyttar náms- og kennsluaðferðir og ígrunda í tengslum við þær
aðferðir möguleika tölvustudds námsumhverfis.
17.11.2012
Málþingið YNDISLESTUR - aðlaðandi aðferðir til að auka áhuga barna á yndislestri var haldið í Háskólanum
á Akureyri á Degi íslenskrar tungu fyrir tilstuðlan Barnabókaseturs, rannsóknarseturs um barnabókmenntir og lestur barna, og Háskólans
á Akureyri. Á málþinginu var rætt um unga lestrarhesta, lestrarhvetjandi verkefni og spennandi leiðir til að kveikja áhuga barna á
bókum og lestri og ýta undir yndislestur bæði heima og í skólanum. Á meðal verkefna sem kynnt voru var verkefnið Fágæti og
furðuverk sem Ingibjörg Auðunsdóttir sérfræðingur á miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyrir hefur
þróað fyrir íslenska skóla og fylgt eftir. Hér eru nokkrar myndir af málþinginu.
Brynhildur Þórarinsdóttir, barnabókahöfundur og dósent við Háskólann á Akureyri fjallaði m.a. um þróun
barnabókaseturs frá hugmynd til veruleika. Hún dró einnig fram upplýsingar um hlut lestrar í lífi barna frá árinu 1968 til
nútímans og benti á leiðir sem stuðla að yndislestri.
Kristín Heba Gísladóttir, meistaranemi við Háskólann á Akureyri greindi frá rannsóknarniðurstöðum á lestrarvenjum ungra
lestrarhesta. Ungir lestrarhestar njóta þess að lesa og lesa mikið en það dregur ekki úr virkni þeirra á öðrum vettvangi. Þeir nota
auka tíma sem gefst til lesturs, lesa áður en þeir fara að sofa, á ferðalögum o.fl. Það kom fram að aukin færni í lestri felur
í sér umbun í sjálfu sér því með aukinni færni fæst bitastæðara lestrarfóður. Gildi lestrar vefst ekki fyrir ungum
lestrarhestum.
Ingibjörg Auðunsdóttir, sérfræðingur við miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri sagði frá
verkefninu Fágæti og furðuverk sem er lestrarhvetjandi verkefni fyrir nemendur sem er unnið heima í samstarfi við foreldra. Veggspjald um verkefnið
Fágæti og furðuverk má finna hér og kynningarefni um verkefnið hér.
Kristín Helga Gunnarsdóttir, barnabókahöfundur rak endahnútinn á málþingið með hnitmiðaðri og skemmtilegri hugvekju um
tíðarandann og mikilvægi þess að taka á móti honum með gagnrýnu hugarfari og sjálfstæðri hugsun.
Siggerður Ólöf Sigurðardóttir, forstöðumaður skólasafns Álfhólsskóla (Hjalla) Kópavogi fjallaði um
skólasafnið og mikilvægi þess að styðja við læsi í víðum skilningi.
Fundarstýra var Sigrún Klara Hannesdóttir.
11.06.2012
Delta Kappa Gamma eru alþjóðleg samtök kvenna í fræðslustörfum. Á Íslandi hafa samtökin
starfað frá því á áttunda áratugnum en 2. júní 1977 var Betadeild samtakanna stofnuð á Akureyri. Betadeild fagnar
því þrjátíu og fimm ára afmæli um þessar mundir.
Laugardaginn 2. júní hélt Betadeild upp á 35 ára afmæli sitt. Á þeim tímamótum er
tilefni til að heiðra konu fyrir vel unnin störf að mennta- og/eða menningarmálum og hefur deildin gert það á fimm ára fresti. Að þessu
sinni varð Rósa Guðrún Eggertsdóttir sérfræðingur á Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á
Akureyri fyrir valinu en hún hefur lagt mikið að mörkum til menntamála.
Rósa hefur haldið ótal námskeið, um flestar hliðar læsis, víðs vegar um landið og unnið með
fjölda kennara að margskonar þróunarverkefnum sem öll miða að bættum árangri nemenda. Auk þess hefur hún haft umsjón með
framhaldsnámi í lestrarfræðum við kennaradeild Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Til hennar leita gjarnan kennarar og
annað skólafólk eftir góðum ráðum og leiðsögn varðandi hvaðeina er viðkemur læsi.
Rósa er höfundur að nýrri nálgun í lestrarkennslu sem hún nefnir Byrjendalæsi. Aðferðina hefur hún þróað í samstarfi við starfandi kennara
í grunnskólum og samstarfsfólk sitt á Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Markmiðið er að
kennarar öðlist aukna fræðilega þekkingu á læsi og færni í lestrarkennslu. Aðferðinni hefur verið mjög vel tekið og mat
á árangri nemenda sýnir jákvæðar niðurstöður. Í vetur vinna um 30 skólar víðs vegar á landinu eftir
aðferðinni. Næsta vetur munu að líkindumum það bil 20 nýir skólar bætast í hóp þeirra skóla sem vilja tileinka
sér þessi vinnubrögð í kennslu læsis.
Rósa hefur gefið út námsefni fyrir grunnskólanemendur og fræðirit
fyrir kennara og annað skólafólk.
Rósa veitti viðtöku viðurkenningu deildarinnar við hátíðlega
athöfn að Hrafnagili, laugardaginn 2. júní sl.
Fyrir hönd stjórnar BetadeildarÞorgerður Sigurðardóttir,formaður
02.05.2012
Vorráðstefnu miðstöðvar
skólaþróunar Hugurinn ræður hálfum sigri, framþróun og fagmennska er lokið. Forstöðumaður miðstöðvar
skólaþróunar Birna Svanbjörnsdóttir sleit ráðstefnunni og minnti ráðstefnugesti á fyrirhugaða Byrjendalæsisráðstefnu
í haust þann 8. september 2012. Hún sagði einnig frá næstu vorráðstefnu en ráðstefnan verður
helguð skólanum og nærsamfélaginu og fer fram 13. apríl 2013. Bestu þakkir færum við þeim sem lögðu efni til
ráðstefnunnar og ráðstefnugestum þökkum við fyrir komuna. Vonandi sjáumst við á næstu ráðstefnum miðstöðvar
skólaþróunar HA.
Heiðursgestur
ráðstefnunnar var Trausti Þorsteinsson fyrrum forstöðumaður miðstöðvar skólaþróunar og lektor við Háskólann á
Akureyri. Í erindi sínu fjallaði Trausti um fagmennsku kennara og forystu þeirra í starfsþróun.
26.04.2012
Hugurinn ræður hálfum sigri - framþróun og
fagmennska
Vorráðstefna um menntavísindi á vegum miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri
verður haldin laugardaginn 28. apríl 2012
Ráðstefnan er ætluð kennurum, stjórnendum í skólum og
öðrum áhugasömum aðilum um nám og kennslu.
Dagskrá
08.03.2012
Fræðslufundur haldinn að Sólborg við Norðurslóð, 15. mars 2012 kl. 15:20-16:20 í L-202
Þorgerður Sigurðardóttir, skólastýra Lundarskóla á Akureyri
Árangur af þróunarstarfi.
Rannsókn á tveimur þróunarverkefnum í grunnskóla.
Erindið byggir á samnefndu meistaraprófsverkefni frá HA vorið 2011. Í erindinu verður greint frá rannsókn sem gerð var á tveimur
þróunarverkefnum í grunnskólum sem hófust haustið 2004.
Rannsóknarspurningin var „Hvaða árangur varð af tveimur þróunarverkefnum í grunnskólum og hvað í undirbúningi og
framkvæmd þeirra skýrir hann?
Í rannsókninni kom fram að lagt var upp með áætlanir, markmið og tilgang með verkefnunum í báðum þróunarverkefnunum og
töldu þeir sem stóðu að þeim að þessir þættir hefðu verið öllum sem þátt tóku ljósir. Rannsóknin
leiddi í ljós að svo var ekki og þó svo að flestir þættir sem fræðin um skólaþróun telja forsendu þess að
þróunarverkefni nái fótfestu hafi verið hafðir í huga í upphafi, var margt sem truflaði ferlið. Það kom einnig fram að
margt af því sem lagt var upp með náði að festast í sessi en annað ekki. Í dag fimm árum síðar eru kennarar
ánægðir með það sem náði fram að ganga og telja sig hafa lært af því. Viðmælendur töluðu langflestir um að
þeir teldu að betur hefði tekist til ef ætlaður hefði verið meiri tími til verkefnanna og ef ráðgjöf og eftirfylgd við þau hefði
verið meiri, bæði meðan á innleiðingu stóð og eftir hana.