Fréttir

Yndislestur - málþing á Degi íslenskrar tungu

Málþingið YNDISLESTUR - aðlaðandi aðferðir til að auka áhuga barna á yndislestri var haldið í Háskólanum á Akureyri á Degi íslenskrar tungu fyrir tilstuðlan Barnabókaseturs, rannsóknarseturs um barnabókmenntir og lestur barna, og Háskólans á Akureyri. Á málþinginu var rætt um unga lestrarhesta, lestrarhvetjandi verkefni og spennandi leiðir til að kveikja áhuga barna á bókum og lestri og ýta undir yndislestur bæði heima og í skólanum. Á meðal verkefna sem kynnt voru var verkefnið Fágæti og furðuverk sem Ingibjörg Auðunsdóttir sérfræðingur á miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyrir hefur þróað fyrir íslenska skóla og fylgt eftir. Hér eru nokkrar myndir af málþinginu. Brynhildur Þórarinsdóttir, barnabókahöfundur og dósent við Háskólann á Akureyri fjallaði m.a. um þróun barnabókaseturs frá hugmynd til veruleika. Hún dró einnig fram upplýsingar um hlut lestrar í lífi barna frá árinu 1968 til nútímans og benti á leiðir sem stuðla að yndislestri. Kristín Heba Gísladóttir, meistaranemi við Háskólann á Akureyri greindi frá rannsóknarniðurstöðum á lestrarvenjum ungra lestrarhesta. Ungir lestrarhestar njóta þess að lesa og lesa mikið en það dregur ekki úr virkni þeirra á öðrum vettvangi. Þeir nota auka tíma sem gefst til lesturs, lesa áður en þeir fara að sofa, á ferðalögum o.fl. Það kom fram að aukin færni í lestri felur í sér umbun í sjálfu sér því með aukinni færni fæst bitastæðara lestrarfóður. Gildi lestrar vefst ekki fyrir ungum lestrarhestum.  Ingibjörg Auðunsdóttir, sérfræðingur við miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri sagði frá verkefninu Fágæti og furðuverk sem er lestrarhvetjandi verkefni fyrir nemendur sem er unnið heima í samstarfi við foreldra. Veggspjald um verkefnið Fágæti og furðuverk má finna hér og kynningarefni um verkefnið hér. Kristín Helga Gunnarsdóttir, barnabókahöfundur rak endahnútinn á málþingið með hnitmiðaðri og skemmtilegri hugvekju um tíðarandann og mikilvægi þess að taka á móti honum með gagnrýnu hugarfari og sjálfstæðri hugsun. Siggerður Ólöf Sigurðardóttir, forstöðumaður skólasafns Álfhólsskóla (Hjalla) Kópavogi fjallaði um skólasafnið og mikilvægi þess að styðja við læsi í víðum skilningi. Fundarstýra var Sigrún Klara Hannesdóttir.