Fréttir

Kynning á innleiðingarferli aðalnámskrár

Nýr vefur í loftið

Krefjandi, fræðandi og skemmtilegt námskeið í Prag

Þrjár starfskonur á miðstöð skólaþróunar HA þær Jenný, Ragnheiður Lilja og Þóra Rósa sækja um þessar mundir námskeiðið Leading educational change sem haldið er í Prag í Tékklandi. Námskeiðið er styrkt af menntaáætlun ESB sem styrkir m.a. evrópsk samstarfsverkefni skóla, endurmenntun kennara, starfsþjálfun kennaranema og námsefnisgerð. Á námskeiðinu eru ásamt þeim stöllum menntafrömuðir frá átta Evrópulöndum. Að sögn miðstöðvarkvenna er námskeiðið krefjandi, fræðandi og skemmtilegt.      

Jean McNiff í heimsókn

Í lok janúar heimsótti Jean McNiff Háskólann á Akureyri. Hún átti m.a. samtal við starfsfólk miðstöðvar skólaþróunar og heilbrigðisvísindasviðs, tók þátt í og stjórnaði dagskrá þriðja rannsóknarþings kennaradeildar og átti fund með forystufólki í leik-, grunn- og framhaldsskólum Akureyrar. Jean McNiff er prófessor í menntarannsóknum við York St John University í Bretlandi. Hún er heimsþekkt og leiðandi fræðikona á sviði starfendarannsókna og fer víða um heim og leggur skólafólki lið í starfendarannsóknum. Hún leggur áherslu á að skólafólk rannsaki sjálft sína eigin starfshætti og leggi þannig sitt af mörkum til þekkingarsköpunar í þágu skólastarfs. Hún leggur jafnfram áherslu á ígrundun eða sjálfsrýni (self-reflection), að skólafólk hugi að eigin gildum og hvort það starfi í samræmi við þau. Jean hefur skrifað greinar og gefið út fjölda bóka um starfendarannsóknir og var hún útnefnd höfundur febrúarmánaðar af bókaútgáfunni Routledge sem nýlega gaf út bókina Action Research: principles and practice eftir Jean McNiff. Hægt er að fá frekari upplýsingar um útnefninguna og Jean sjálfa á vef Routledge.   Vilji fólk kynna sér viðhorf og störf Jean McNiff þá heldur hún úti vefsíðu: http://www.jeanmcniff.com/.

Mannabreyting á miðstöð skólaþróunar

Birna María Svanbjörnsdóttir forstöðumaður miðstöðvar skólaþróunar er í leyfi frá störfum árið 2013. Jenný Gunnbjörnsdóttir hefur tekið við störfum hennar og veitir allar nánari upplýsingar um starfsemi miðstöðvarinnar. Netfang: jennyg@unak.is Sími: 4608565  

Grunnskólinn í Borgarnesi í heimsókn

Fimmtudaginn 22. nóvember sótti starfsfólk Grunnskólans í Borgarnesi miðstöð skólaþróunar HA heim. Starfsfólkið hlustaði m.a. á fyrirlestur um hvað það er sem einkennir einstaklingsmiðað skólastarf og hvað þarf til svo hægt sé að tala um einstaklingsmiðun og tók þátt í umfjöllun um verkfæri eins og jafningjastuðning og teymisvinnu. Í lok dagsins var lögð áhersla á að kynna og rifja upp fjölbreyttar náms- og kennsluaðferðir og ígrunda í tengslum við þær aðferðir  möguleika tölvustudds námsumhverfis.  

Yndislestur - málþing á Degi íslenskrar tungu

Málþingið YNDISLESTUR - aðlaðandi aðferðir til að auka áhuga barna á yndislestri var haldið í Háskólanum á Akureyri á Degi íslenskrar tungu fyrir tilstuðlan Barnabókaseturs, rannsóknarseturs um barnabókmenntir og lestur barna, og Háskólans á Akureyri. Á málþinginu var rætt um unga lestrarhesta, lestrarhvetjandi verkefni og spennandi leiðir til að kveikja áhuga barna á bókum og lestri og ýta undir yndislestur bæði heima og í skólanum. Á meðal verkefna sem kynnt voru var verkefnið Fágæti og furðuverk sem Ingibjörg Auðunsdóttir sérfræðingur á miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyrir hefur þróað fyrir íslenska skóla og fylgt eftir. Hér eru nokkrar myndir af málþinginu. Brynhildur Þórarinsdóttir, barnabókahöfundur og dósent við Háskólann á Akureyri fjallaði m.a. um þróun barnabókaseturs frá hugmynd til veruleika. Hún dró einnig fram upplýsingar um hlut lestrar í lífi barna frá árinu 1968 til nútímans og benti á leiðir sem stuðla að yndislestri. Kristín Heba Gísladóttir, meistaranemi við Háskólann á Akureyri greindi frá rannsóknarniðurstöðum á lestrarvenjum ungra lestrarhesta. Ungir lestrarhestar njóta þess að lesa og lesa mikið en það dregur ekki úr virkni þeirra á öðrum vettvangi. Þeir nota auka tíma sem gefst til lesturs, lesa áður en þeir fara að sofa, á ferðalögum o.fl. Það kom fram að aukin færni í lestri felur í sér umbun í sjálfu sér því með aukinni færni fæst bitastæðara lestrarfóður. Gildi lestrar vefst ekki fyrir ungum lestrarhestum.  Ingibjörg Auðunsdóttir, sérfræðingur við miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri sagði frá verkefninu Fágæti og furðuverk sem er lestrarhvetjandi verkefni fyrir nemendur sem er unnið heima í samstarfi við foreldra. Veggspjald um verkefnið Fágæti og furðuverk má finna hér og kynningarefni um verkefnið hér. Kristín Helga Gunnarsdóttir, barnabókahöfundur rak endahnútinn á málþingið með hnitmiðaðri og skemmtilegri hugvekju um tíðarandann og mikilvægi þess að taka á móti honum með gagnrýnu hugarfari og sjálfstæðri hugsun. Siggerður Ólöf Sigurðardóttir, forstöðumaður skólasafns Álfhólsskóla (Hjalla) Kópavogi fjallaði um skólasafnið og mikilvægi þess að styðja við læsi í víðum skilningi. Fundarstýra var Sigrún Klara Hannesdóttir.

Rósa G. Eggertsdóttir heiðruð fyrir vel unnin störf að menntamálum

Delta Kappa Gamma eru alþjóðleg samtök kvenna í fræðslustörfum. Á Íslandi hafa samtökin starfað frá því á áttunda áratugnum en 2. júní 1977 var Betadeild samtakanna stofnuð á Akureyri. Betadeild fagnar því þrjátíu og fimm ára afmæli um þessar mundir. Laugardaginn 2. júní hélt Betadeild upp á 35 ára afmæli sitt. Á þeim tímamótum er tilefni til að heiðra konu fyrir vel unnin störf að mennta- og/eða menningarmálum og hefur deildin gert það á fimm ára fresti. Að þessu sinni varð Rósa Guðrún Eggertsdóttir sérfræðingur á Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri fyrir valinu en hún hefur lagt mikið að mörkum til menntamála. Rósa hefur haldið ótal námskeið, um flestar hliðar læsis, víðs vegar um landið og unnið með fjölda kennara að margskonar þróunarverkefnum sem öll miða að bættum árangri nemenda. Auk þess hefur hún haft umsjón með framhaldsnámi í lestrarfræðum við kennaradeild Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Til hennar leita gjarnan kennarar og annað skólafólk eftir góðum ráðum og leiðsögn varðandi hvaðeina er viðkemur læsi. Rósa er höfundur að nýrri nálgun í lestrarkennslu sem hún nefnir Byrjendalæsi. Aðferðina hefur hún þróað í samstarfi við starfandi kennara í grunnskólum og samstarfsfólk sitt á Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Markmiðið er að kennarar öðlist aukna fræðilega þekkingu á læsi og færni í lestrarkennslu. Aðferðinni hefur verið mjög vel tekið og mat á árangri nemenda sýnir jákvæðar niðurstöður. Í vetur vinna um 30 skólar víðs vegar á landinu eftir aðferðinni. Næsta vetur munu að líkindumum það bil 20 nýir skólar bætast í hóp þeirra skóla sem vilja tileinka sér þessi vinnubrögð í kennslu læsis. Rósa hefur gefið út námsefni fyrir grunnskólanemendur og fræðirit  fyrir kennara og annað skólafólk.   Rósa veitti viðtöku viðurkenningu deildarinnar við hátíðlega athöfn að Hrafnagili, laugardaginn 2. júní sl.   Fyrir hönd stjórnar BetadeildarÞorgerður Sigurðardóttir,formaður    

Vorráðstefnu miðstöðvar skólaþróunar við HA lokið

Vorráðstefnu miðstöðvar skólaþróunar Hugurinn ræður hálfum sigri, framþróun og fagmennska er lokið. Forstöðumaður miðstöðvar skólaþróunar Birna Svanbjörnsdóttir sleit ráðstefnunni og minnti ráðstefnugesti á fyrirhugaða Byrjendalæsisráðstefnu í haust þann 8. september 2012. Hún sagði einnig frá næstu vorráðstefnu en ráðstefnan verður helguð skólanum og nærsamfélaginu og fer fram 13. apríl 2013. Bestu þakkir færum við þeim sem lögðu efni til ráðstefnunnar og ráðstefnugestum þökkum við fyrir komuna. Vonandi sjáumst við á næstu ráðstefnum miðstöðvar skólaþróunar HA. Heiðursgestur ráðstefnunnar var Trausti Þorsteinsson fyrrum forstöðumaður miðstöðvar skólaþróunar og lektor við Háskólann á Akureyri. Í erindi sínu fjallaði Trausti um fagmennsku kennara og forystu þeirra í starfsþróun.

Vorráðstefna um menntavísindi

Hugurinn ræður hálfum sigri - framþróun og fagmennska Vorráðstefna um menntavísindi á vegum miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri verður haldin laugardaginn 28. apríl 2012 Ráðstefnan er ætluð kennurum, stjórnendum í skólum og öðrum áhugasömum aðilum um nám og kennslu. Dagskrá