28.05.2013
Í vetur mun miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri bjóða upp á námskeið fyrir kennara á Akureyri og nágrenni.
22.02.2013
Þrjár starfskonur á miðstöð skólaþróunar HA
þær Jenný, Ragnheiður Lilja og Þóra Rósa sækja um þessar mundir námskeiðið Leading educational change sem haldið er í
Prag í Tékklandi. Námskeiðið er styrkt af menntaáætlun ESB sem styrkir m.a. evrópsk samstarfsverkefni skóla, endurmenntun kennara,
starfsþjálfun kennaranema og námsefnisgerð. Á námskeiðinu eru ásamt þeim stöllum menntafrömuðir frá átta
Evrópulöndum. Að sögn miðstöðvarkvenna er námskeiðið krefjandi, fræðandi og skemmtilegt.
21.02.2013
Í lok janúar heimsótti Jean McNiff Háskólann á Akureyri. Hún átti m.a. samtal við starfsfólk
miðstöðvar skólaþróunar og heilbrigðisvísindasviðs, tók þátt í og stjórnaði dagskrá
þriðja rannsóknarþings kennaradeildar og átti fund með forystufólki í leik-, grunn- og framhaldsskólum Akureyrar.
Jean McNiff er prófessor í menntarannsóknum við York St John University í Bretlandi. Hún er heimsþekkt og leiðandi fræðikona
á sviði starfendarannsókna og fer víða um heim og leggur skólafólki lið í starfendarannsóknum. Hún leggur áherslu á
að skólafólk rannsaki sjálft sína eigin starfshætti og leggi þannig sitt af mörkum til þekkingarsköpunar í þágu
skólastarfs. Hún leggur jafnfram áherslu á ígrundun eða sjálfsrýni (self-reflection), að skólafólk hugi að eigin gildum og
hvort það starfi í samræmi við þau.
Jean hefur skrifað greinar og gefið út fjölda bóka um starfendarannsóknir og var hún útnefnd höfundur febrúarmánaðar af
bókaútgáfunni Routledge sem nýlega gaf út bókina Action Research: principles and practice eftir Jean McNiff. Hægt er að fá
frekari upplýsingar um útnefninguna og Jean sjálfa á vef Routledge.
Vilji fólk kynna sér viðhorf og störf Jean McNiff þá heldur hún úti vefsíðu: http://www.jeanmcniff.com/.
04.01.2013
Birna María Svanbjörnsdóttir forstöðumaður miðstöðvar skólaþróunar er í leyfi frá störfum árið
2013. Jenný Gunnbjörnsdóttir hefur tekið við störfum hennar og veitir allar nánari upplýsingar um starfsemi miðstöðvarinnar.
Netfang: jennyg@unak.is
Sími: 4608565
03.12.2012
Fimmtudaginn 22. nóvember sótti starfsfólk Grunnskólans í Borgarnesi miðstöð skólaþróunar HA heim. Starfsfólkið
hlustaði m.a. á fyrirlestur um hvað það er sem einkennir einstaklingsmiðað skólastarf og hvað þarf til svo hægt sé að tala um
einstaklingsmiðun og tók þátt í umfjöllun um verkfæri eins og jafningjastuðning og teymisvinnu. Í lok dagsins var lögð
áhersla á að kynna og rifja upp fjölbreyttar náms- og kennsluaðferðir og ígrunda í tengslum við þær
aðferðir möguleika tölvustudds námsumhverfis.
17.11.2012
Málþingið YNDISLESTUR - aðlaðandi aðferðir til að auka áhuga barna á yndislestri var haldið í Háskólanum
á Akureyri á Degi íslenskrar tungu fyrir tilstuðlan Barnabókaseturs, rannsóknarseturs um barnabókmenntir og lestur barna, og Háskólans
á Akureyri. Á málþinginu var rætt um unga lestrarhesta, lestrarhvetjandi verkefni og spennandi leiðir til að kveikja áhuga barna á
bókum og lestri og ýta undir yndislestur bæði heima og í skólanum. Á meðal verkefna sem kynnt voru var verkefnið Fágæti og
furðuverk sem Ingibjörg Auðunsdóttir sérfræðingur á miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyrir hefur
þróað fyrir íslenska skóla og fylgt eftir. Hér eru nokkrar myndir af málþinginu.
Brynhildur Þórarinsdóttir, barnabókahöfundur og dósent við Háskólann á Akureyri fjallaði m.a. um þróun
barnabókaseturs frá hugmynd til veruleika. Hún dró einnig fram upplýsingar um hlut lestrar í lífi barna frá árinu 1968 til
nútímans og benti á leiðir sem stuðla að yndislestri.
Kristín Heba Gísladóttir, meistaranemi við Háskólann á Akureyri greindi frá rannsóknarniðurstöðum á lestrarvenjum ungra
lestrarhesta. Ungir lestrarhestar njóta þess að lesa og lesa mikið en það dregur ekki úr virkni þeirra á öðrum vettvangi. Þeir nota
auka tíma sem gefst til lesturs, lesa áður en þeir fara að sofa, á ferðalögum o.fl. Það kom fram að aukin færni í lestri felur
í sér umbun í sjálfu sér því með aukinni færni fæst bitastæðara lestrarfóður. Gildi lestrar vefst ekki fyrir ungum
lestrarhestum.
Ingibjörg Auðunsdóttir, sérfræðingur við miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri sagði frá
verkefninu Fágæti og furðuverk sem er lestrarhvetjandi verkefni fyrir nemendur sem er unnið heima í samstarfi við foreldra. Veggspjald um verkefnið
Fágæti og furðuverk má finna hér og kynningarefni um verkefnið hér.
Kristín Helga Gunnarsdóttir, barnabókahöfundur rak endahnútinn á málþingið með hnitmiðaðri og skemmtilegri hugvekju um
tíðarandann og mikilvægi þess að taka á móti honum með gagnrýnu hugarfari og sjálfstæðri hugsun.
Siggerður Ólöf Sigurðardóttir, forstöðumaður skólasafns Álfhólsskóla (Hjalla) Kópavogi fjallaði um
skólasafnið og mikilvægi þess að styðja við læsi í víðum skilningi.
Fundarstýra var Sigrún Klara Hannesdóttir.