Fréttir

Fræðslufundi frestað - Bókvitið verður í askana látið ... en ekki verknámið

Fræðslufundinum með Hildi Betty Kristjánsdóttur hefur verið frestað til 5. maí. Fræðslufundur verður haldinn fimmtudaginn 5. maí kl. 16:30. Þar flytur Hildur Betty Kristjánsdóttir, náms- og starfsráðgjafi, verkefnastjóri hjá SÍMEY fyrirlestur sem byggir á niðurstöðum rannsóknar um tengsl bók-, list og verknáms á unglingastigi. Fundurinn er haldinn í húsnæði Háskólans á Akureyri, Sólborg við Norðurslóð í stofu L101 og er öllum opinn. Umræða um stöðu list- og verkgreina hefur farið fram á Íslandi um alllangt skeið. Hún hefur einkennst af því hvernig auka megi vægi þeirra innan skólakerfisins. Fram kemur í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 að ráðherra lætur grunnskólum í té aðalnámskrá og í 24. gr. er lögð áhersla á jafnvægi milli bók- og verklegs náms. Markmið rannsóknarinnar var að öðlast skilning á tengslum bók-, list- og verknáms á unglingastigi grunnskóla með því að kanna viðhorf viðmælenda sem hafa faglega þekkingu, reynslu og skoðanir á þessu sviði. Eftirfarandi spurning lá til grundvallar; Hvaða möguleikar eru á að viðhafa val á milli bók-, list- og verknáms á unglingastigi? Í kynningunni verður gerð grein fyrir fræðilegum þáttum sem lagðar voru til grundavallar í rannsóknninni og niðurstöður rannsóknarinnar kynntar.

Viðmót kennara og áhrif þess á námsumhverfi barna í leikskólum. “Ef stefna skólans slær ekki í takt við hjarta þitt ber hún lítinn sem engan árangur”

Fræðslufundur verður haldinn fimmtudaginn 4. nóvember kl. 16:30. Þar flytur Drífa Þórarinsdóttir, deildarstjóri á leikskólanum Kiðagili á Akureyri fyrirlestur um viðmót kennara og áhrif þess á námsumhverfi barna í leikskólum. Fundurinn er haldinn í húsnæði Háskólans á Akureyri, Sólborg við Norðurslóð í stofu L101 og er öllum opinn. Megintilgangur verkefnisins var að kanna viðmót leikskólakennara, áhrif þess á námsumhverfi barna og skilning kennara á eigin viðmóti. Þá var kannað hvort viðmót kennara geti verið háð agastefnu skólans og starfsreynslu kennara. Kveikjan að verkefninu var áhugi höfundar á samskiptum kennara og barna í skólum. Ef litið er til rannsókna á samskiptun kennara og barna í skólastofunni þá hefur komið fram að viðmót kennara skiptir miklu máli og hefur áhrif á nám og þroska barna. Í málstofunni verður stuttlega gerð grein fyrir fræðilegum þáttum sem lagðir voru til grundvallar í rannsókninni og niðurstöður rannsóknarinnar kynntar.

Þetta snýst allt um viðhorf – stjórnun og skipulag kennslu barna með sérþarfir á yngsta stigi grunnskólans

Fræðslufundur verður haldinn fimmtudaginn 14. október kl. 16:30. Þar flytur Anna Kolbrún Árnadóttir, deildarstjóri sérkennslu í Síðuskóla á Akureyri fyrirlestur um stjórnun og skipulag kennslu barna með sérþarfir á yngsta stigi grunnskólans. Fundurinn er haldinn í húsnæði Háskólans á Akureyri, Sólborg við Norðurslóð í stofu L101 og er öllum opinn. Á Íslandi starfa grunnskólar eftir hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar. Lög og reglugerðir styðja við hugmyndafræðina ásamt skólastefnum sveitarfélaga. Hugmyndafræðin um skóla án aðgreiningar gerir kröfur um að skólar og kennarar aðlagi bæði námsefni og kennsluhætti að stefnunni. Á fundinum verður sagt frá rannsókn sem ætlað var að varpa ljósi á hvernig stjórnun og skipulagi kennslu er háttað á yngsta stigi grunnskólanna á Akureyri og að skoða hvort stjórnun og skipulag kennslunnar samræmist íslenskum lögum, alþjóðlegum reglugerðum sem Íslendingar eru aðilar að og skólastefnu Akureyrarbæjar. Aðferðin við rannsóknina fólst í hálfopnum viðtölum sem sem tekin voru á tímabilinu nóvember 2009 til febrúar 2010. Þátttakendur í rannsókninni voru fjórir sérkennarar, fjórir umsjónarkennarar og fjórir skólastjórar.

Byrjendalæsisblaðið

Fjórða tölublað þriðja árgangs af vefritinu Byrjendalæsi er komið út. Blaðið er að þessu sinni helgað starfi í skólunum. Þar er að finna umfjöllun um aukið sjálfstæði nemenda í vinnubrögðum auk efnis sem ráðgjafar hafa aflað á heimsóknum sínum í skóla og kennarar hafa sent ritstjórn.

Fræðslufundir Skólaþróunarsviðs 2009-2010

Skólaþróunarsvið hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri stendur að venju fyrir fræðslufundum á skólaárinu 2009-2010. Áhersla er lögð á að kynna nýjar rannsóknir á sviði uppeldis- og menntamála á fundunum eða farsælt þróunarstarf í skólum. Fundirnir eru klukkutíma langir, hefjast kl. 16:30 í Þingvallastræti 23 á Akureyri og eru öllum opnir. Sérstaklega eru kennarar, skólastjórar, foreldrar, háskólanemar og aðrir þeir sem áhuga hafa á skólamálum boðnir velkomnir. Form fundanna er með þeim hætti að framsögumaður talar í 40 mínútur en eftir það eru leyfðar fyrirspurnir og umræður.

Fágæti og Furðuverk

Það var handagangur í öskjunni þegar unnið var að því á vegum Skólaþróunarsviðs að ganga frá efni í 35 bókaskjóður þróunarverkefnisins Fágæti og furðuverk og koma þeim út í fyrsta skólann sem tekur við verkefninu. Í hverri skjóðu er að finna:Bók eða fræðilegt efni fyrir börn um eitthvert tiltekið þema.Tímarit fyrir fullorðna um sama efni.Verkefni fyrir börn sem tengist þemanu.Leikföng eða hlutir sem tengjast þemanu.Samskiptabók fyrir nemandann til að nota við mat á verkefninu og fyrir athugasemdir foreldra.

Byrjendalæsisblaðið

Fyrsta tölublað þriðja árgangs af Byrjendalæsisblaðinu er nú komið út og má nálgast blaðið undir hlekknum Útgefið efni, hér til vinstri á síðunni.

Byrjendalsæisblaðið á vef Skólaþróunarsviðs

Byrjendalæsisblaðið hefur verið gert aðgengilegt öllum á vef Skólaþróunarsviðs. Undir hlekknum Útgefið efni hér til vinstri er hægt að komast í öll hefti blaðsins.

Jólasaga um Pottasleiki og óþekku Björgu eftir Heru Þöll Árnadóttur.

Hera Þöll samdi þessa jólasögu þegar hún var 11 ára og nú tveimur árum síðar gáfu hún og foreldrar hennar góðfúslegt leyfi til handa Skólaþróunarsviði Háskólans á Akureyri að nýta söguna í þágu Byrjendalæsis.

Byrjendalæsisblaðið

Út er komið 3. tölublað 2. árgangs af Byrjendalæsisblaðinu. Að útgáfunni stendur Skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri og er blaðinu ætlað að styðja við kennara sem vinna í 1. og 2. bekk eftir aðferðum Byrjendalæsis.Efni blaðsins er að venju fjölbreytt ber þar hæst:Umfjöllun um lykilorð Stöðvavinnu Hugsað upphátt - sem námsaðferð Heimavinna